Þrír ungir Selfyssingar unnu norrænt mót

Ari Gauti, Daníel Rökkvi og Jón Þórarinn, leikmennirnir sem kepptu …
Ari Gauti, Daníel Rökkvi og Jón Þórarinn, leikmennirnir sem kepptu fyrir hönd Selfoss eSports á mótinu. Ljósmynd/Ómar Ragnarsson

Rafíþróttalið frá Selfossi, Selfoss eSports, sigraði á laugardag mót sem haldið var í Rocket League á vegum NorcupEsports. 

Héraðsmiðillinn DFS greinir frá þessu.

NorcupEsports hélt mótið sem samvinnuverkefni á milli félagsstöðva frá Danmörku, Noregi og Íslandi en einungis fjögur lið náðu að keppa til úrslita á mótinu og Selfoss eSports var eina íslenska liðið. Segir í umfjöllun DFS að eftir keppnina hafi verið vel talað um íslenska liðið og samskiptin og traustið innan liðsins sögð til fyrirmyndar.

„Gætum ekki verið stoltari af þessum strákum“

„Sem nýtt lið sem vantar reynslu þá er þessi sigur gott merki um þá vinnu sem við höfum verið í með þeim sé að skila sér. Þeir stóðu sig frábærlega í öllum þeim leikjum sem þeir spiluðu. Spilamennskan einkenndist af samvinnu og trausti samhliða góðum skilning á leiknum,“ er haft eftir Jóni Hirti, yfirþjálfara liðsins.

„Þegar þeir byrjuðu að gera villur tóku þeir þeim ábendingum sem komu og notuðu það til að koma sér aftur inn í leikinn. Við gætum ekki verið stoltari af þessum strákum og þeir áttu sigurinn svo sannarlega skilið.”

Tekið er fram á vef DFS að liðið hafi komið sterkt inn frá byrjun og skorað sitt fyrsta mark á þriðju sekúndu fyrsta leiks.

Úrslitaleikurinn var gegn Team Nordic og fór 4-1 fyrir Selfyssingum. Í síðasta leiknum hafði Team Nordic möguleika á að jafna stigin og halda sér í keppninni en þrettán sekúndum fyrir leikslok nýtti Selfoss sér pressuna hjá andstæðingunum og sáu tækifæri til þess að skora og tryggðu sér vinninginn með því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka