HK vann Víking verðskuldað

George Nunn og Pablo Punyed í leik HK og Víkings …
George Nunn og Pablo Punyed í leik HK og Víkings í kvöld. mbl.is/Eyþór

Eflaust vill enginn kannast við vanmat þegar Íslands- og bikarmeistarar Víkinga – eina liðið sem hefur unnið alla leiki sína í deildinni – mætti neðsta liði deildarinnar HK í Kórnum í kvöld þegar leikið var í efstu deild karla í fótbolta.  

Það var svo sem varla vanmat, frekar að vörn stórliðs Víkinga væri ekki alveg með á nótunum á meðan HK-menn voru einbeittir og unnu 3:1, áttu það alveg skilið og komust upp um tvö sæti, eru nú í því tíunda. 

Fyrsti sigur HK á tímabilinu og fyrstu stigin sem Víkingarnir tapa.

Heimamenn voru vel á verði, vörðust vel og skipulega en létu líka vita að þeir gætu alveg náð snöggum sóknum á meðan gestirnir reyndi að finna glufur í vörn HK, sem gekk reyndar ekki mjög vel en þeir héldu samt áfram.

Á 28. mínútu kom svo mark þegar Pablo Punyed féll rétt utan teigs með boltann og Atli Þór Jónasson var snöggur til, náði boltanum og rakti rétt inn í teig, þaðan sem hann skaut af öryggi niður í vinstra hornið.  Neðsta liðið í deildinni búið að ná forystu gegn efsta liðinu, staðan 1:0 fyrir HK.

Víkingar settu Aron Elís Þrándarson, Nikolaj Hansen og Ara Sigurpálsson inn í hálfleik – greinilega átti að skerpa á sóknarþunga en eftir sem áður var það vörnin sem var veiki hlekkurinn.

Á 50. mínútu kom svo fyrsta færi síðari hálfleiks þegar  Arnþór Ari Atlason skaust upp hægri kantinn þegar vörn Víkinga var lengi að athafna sig, hann rakti boltann inn í vítateig hægra megin en skotið fór rétt yfir slánna.

Fimm mínútum síðar sváfu Víkingar aftur á verðinum, Pablo missti boltann á miðjum eigin vallarhelmingi, Magnús Arnar Pétursson náði boltanum, rakti inn í vítateig og skaut hnitmiðað niður í hægra hornið.   Svo einfalt og staðan 2:0 fyrir HK.

Þá tóku Víkingar við sér og á 57. mínútu minnkaði Aron Elís Þrándarson muninn í eitt mark með góðum skalla eftir sendingu Ara Sigurpálssonar frá vinstri, 2:1.

Eftir það sóttu Víkingar stíft, mikið hlaupið en það gekk illa að fá góðu færin.  HK-menn vörðust vel og töfðu eftir mætti, skyldi engan undra og gerðu það vel. 

Það gekk ekkert hjá Víkingum og á síðustu mínútu uppbótartíma var vörn Víkinga aftur í basli, missti boltann svo Arnþór Atli komst einn á móti markmanni og lyfti boltanum yfir hann,  3:1,  og gríðarlegur fögnuður braust út í Kórnum.

HK-menn voru einbeittir, vörnin hélt  og sóknin var oft beitt, báru enga sérstaka virðingu fyrir Íslands- og bikarmeisturunum.    Greinilegt að heimamenn vissu við hvað var að eiga og sýndi það með baráttu í vörninni.   Sóknin nýtti sér líka að vörn Víkinga virtist ekki með sjálfstraustið alveg í lagi.

Víkingar voru eins og oft smá tíma að komast í gang, sóttu samt stíft en fundu ekki leið að marki heimamanna þó þeir reyndu.  Spiluðu til að halda boltanum, sem gekk oft aftast á völlinn að markverðinum en sá var ekki mjög öruggur, frekar en vörnin.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

HK 3:1 Víkingur R. opna loka
90. mín. Fjórum mínútum bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert