„Þetta var hressilegur skjálfti“

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, var allur hinn rólegasti eftir að jarðskjálfti reið yfir í dag. Hann sat sem fastast í forsetastól þegar skjálftinn skók Alþingishúsið með tilheyrandi drunum og látum og horfði á eftir Helga Hrafni Gunnarssyni, þingmanni Pírata, taka til fótanna úr ræðustól þingsins.

„Þetta var hressilegur skjálfti,“ sagði Steingrímur við mbl.is.

„Við gerðum stutt hlé á þingstörfum til að átta okkur aðeins á stöðu mála. Svo tæmdist auðvitað þingstóllinn.“

Tæknimanni stóð ekki á sama

Steingrímur segir að alþingishúsið sé sterklega byggt og því hafi ekki verið neitt að óttast. Hins vegar hafi nokkrar myndir á veggjum hússins hrist og ein þeirra dottið í gólfið.

„Hér varð blessunarlega ekkert tjón, en tæknimanninum hérna efst í þinghúsinu stóð ekki á sama. Þar lék hreinlega allt á reiðiskjálfi og þurftum við því að ganga úr skugga um að allur búnaður virkaði enn sem skyldi.“

Steingrímur segir að þingstörfum verði áfram haldið í dag.

„Já, við munum halda bara ótrauð áfram. Í dag er dagskráin þétt og við verðum hérna frameftir degi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert