Engar sögur komið fram í Garðabæ

Bæjarstjóri Garðabæjar kallar eftir skýrari verkferlum í málum sem varða …
Bæjarstjóri Garðabæjar kallar eftir skýrari verkferlum í málum sem varða atburði sem þessa. mbl.is/Kristinn Magnússon

Engar sögur hafa enn borist bæjarskrifstofu Garðabæjar um slæma meðferð barna af hálfu hjónanna Bever­ly Gísla­son­ar og Ein­ars Gísla­son­ar á þeim tíma sem þau starfræktu leikskóla í sveitarfélaginu eða störfuðu þar sem dagforeldrar, að sögn Gunnars Einarssonar, bæjarstjóra. Hann segir bæjaryfirvöld enn vera að fóta sig í rannsókn málsins og kallar hann eftir skýrari verkferlum.

Hjónin sem um ræðir starfræktu Montessori-leikskóla í Sjálandsskóla og störfuðu einnig sem dagforeldrar í Garðabæ. Fyrir þann tíma höfðu þau rekið barnaheimili á Hjalteyri. Nýlega hafa einstaklingar sem dvöldu á barnaheimilinu komið fram í fjölmiðlum og sagt frá illri meðferð hjónanna. Eru þau sögð hafa beitt börnin líkamlegu, andlegu, og kynferðisofbeldi. 

Í gær birti bærinn yfirlýsingu á heimasíðu sinni þar sem kallað var eftir því að hlutaðeigandi aðilar, foreldrar eða börn sem voru í leikskóla eða daggæslu hjá hjónunum, hafi samband við bæjarskrifstofuna vegna málsins með fyrirspurnir eða ábendingar.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar.
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar. mbl.is/RAX

Reynslan góð hingað til

Að sögn Gunnars hafa engar ábendingar borist sem benda til þess að eitthvað misferli hefði átt sér stað í Garðabæ. Hingað til hafa einungis foreldrar haft samband sem hafa góða reynslu af hjónunum, eða foreldrar sem hafa áhyggjur og vilja fá meiri upplýsingar en hafa sjálf engar sögur fram að færa.

„Við reynum bara að svara eftir bestu getu. Við skiljum vel áhyggjur foreldra og við erum að kalla eftir ábendingum ef einhver er með slæma upplifun. Við erum með eftirlit, bæði með leikskólum og dagforeldrum og það voru alveg reglulegar heimsóknir til þessara aðila á sínum tíma. En við erum að fara yfir þessa ferla hjá okkur, hvernig þetta var og er.“

Enginn lagalegur rammi

Í samtali við mbl.is í gær sagði bæjarstjórinn að bæjarfélagið væri að leita að hlutlausum utanaðkomandi aðila til að gera úttekt á málinu. Spurður hvernig það gangi, segir bæjarstjórinn að búið sé að hafa samband við félagsmálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga þar sem bæjaryfirvöld fengu góðar ráðleggingar. Á hann von á frekara samtali við félagsmálaráðuneytið um þetta mál.

Gunnar segir sveitarfélögin ekki vera með sérstakan lagalegan farveg í svona málum líkt og ríkið er með og kallar hann eftir úrbótum á því. „Það er enginn lagalegur rammi sem við getum stutt okkur við. Við erum bara að leita okkur ráða með hvaða hætti við eigum að standa að þessu.“

Hann segir allskonar ferla vera til staðar sem segja til um hvernig sveitarfélög eigi að taka á málum sem varða einelti eða kynferðisbrotamál. Hins vegar sé skortur á verkferlum er varða löngu liðna atburði á borð við þessa.

Barst tilkynning árið 2008

Í kringum 2008 barst bæjaryfirvöldum ábending frá einstaklingi sem hafði dvalið sem barn á Hjalteyri og  varaði hann við framkomu hjónanna gagnvart börnum.

 „Það kom símtal það sneri að því að viðkomandi hafði upplifað harðræði á Hjalteyri þar sem var mikill agi og börnin látin biðja og þeim hótað. Hann hafði samband við leikskólafulltrúann og sagði frá þessu, það var nú ekki minnst á kynferðisofbeldi en hitt var nú alveg nógu slæmt. Hann hafði áhyggjur af því að það sama væri viðhaft hér í þessari starfsemi.“

Að sögn Gunnars var engin sérstök úttekt eða rannsókn gerð á starfsemi hjónanna þá, enda hafði engin önnur kvörtun borist og þótti því ekki tilefni til. Hann ítrekar hins vegar að eftirlit með leikskólum og starfsemi dagforeldra hafi verið gott. Þorir hann nánast að fullyrða að eitthvað hefði heyrst í foreldrum ef eitthvað hefði bjátað á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert