This is a modal window.
Beginning of dialog window. Escape will cancel and close the window.
End of dialog window.
Brúin yfir Ferjukotssíki í Borgarfirði féll í morgun vegna mikilla vatnavaxta, skömmu eftir að íbúi á svæðinu keyrði yfir hana til vinnu.
Þetta segir Heiða Dís Fjeldsted, íbúi í Ferjukoti. Hún kíkti á brúna um klukkan korter í átta í morgun og þá var hún fallin.
„Það er bara rosalegt flóð hérna. Rosalegir jakar og það flæðir yfir vegi. Það styttist í að það flæði hér inn í hús líka,“ segir Heiða. En þau eru vön flóðum af þessu tagi og hafa þar til gerðar dælur til að dæla út vatninu.
„Í febrúar fyrir tveimur árum þá flæddi hér um allt hús. Þá hafði það ekki gerst í 20 eða 25 ár.“
Á vef Vegagerðarinnar segir að vegurinn yfir Ferjukotssíki sé lokaður þar sem brúin hafi skemmst í vatnavöxtum.
Brúin er nýleg og var tekin í notkun í júní árið 2023 en heimafólk gagnrýndi smíði hennar á sínum tíma.
„Það sögðu hér allir í kring að svona brú myndi aldrei virka, eins og var ákveðið að setja. Líka þeir sem voru hérna uppfrá frá Vegagerðinni og framkvæmdu þetta, þeir töldu þetta ekki ganga. En það það var ekki mikið hlustað á okkur, þannig maður er pirraður yfir þessu,“ segir Heiða.
„Það voru notaðir símastaurar sem undirstöður og við sögðum að strax og jakarnir færu að koma úr Norðurárdal þá myndi brúin aldrei þola það,“ bætir hún við.
Verkfræðingarnir hjá Vegagerðinni hafi sig þó talið vita betur, að sögn Heiðu. En þeir eru væntanlegir á svæðið í dag til að skoða aðstæður.
Hún segir brúna mikið notaða og brúarleysið kljúfi landið í Ferjukoti í sundur. Margt fólk fari þar yfir á leið í og úr vinnu. Það muni um hálftíma keyrslu fyrir þá sem fari frá Bifröst yfir á Hvanneyri til vinnu.
„Það voru tvær brýr þarna og önnur fór alveg í flóðinu í febrúar 2023 og þessi laskaðist mjög. Þá var ákveðið að setja ekki nýja brú þar sem sú gamla litla var en setja nýja þar sem stærri brúin var,“ útskýrir Heiða.
Í tilkynningu á vef Vegagerðarinnar frá árinu 2023 segir að um bráðabrigðabrú sé að ræða. Síkisbrýrnar hafi lengi verið erfiðar í viðhaldi þar sem vegurinn að brúnum og milli þeirra hafi sigið töluvert. Í raun sé nauðsynlegt að byggja nýja brú á þessum stað en enn sé ekki til fjárveiting fyrir því.