„Sanngjörn“ réttarhöld ekki möguleg i tæka tíð

Mitch McConnell.
Mitch McConnell. AFP

Öldungadeild Bandaríkjaþings getur ekki haldið „sanngjörn eða alvarleg“ réttarhöld yfir Donald Trump Bandaríkjaforseta á þeim stutta tíma sem er eftir þangað til hann lætur af störfum í næstu viku. Þetta sagði leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni.

Fulltrúadeild þingsins ákvað fyrr í kvöld að ákæra Trump fyrir embættisglöp og er þetta í fyrsta sinn sem Bandaríkjaforseti er ákærður tvívegis til embættismissis. 

„Miðað við reglurnar, ferlið og það fordæmi innan öldungadeildarinnar sem stýrir réttarhöldum vegna ákæru gegn forseta þá er einfaldlega ekki möguleiki að sanngjörn eða alvarleg réttarhöld geti átt sér stað áður en verðandi forseti, Biden, sver embættiseið í næstu viku,“ sagði Mitch McConnell, leiðtogi meirihlutans í öldungadeildinni.

Hann bætti við að „ef ferlið í öldungadeildinni myndi hefjast í þessari viku og ganga hratt fyrir sig myndi engin lokaniðurstaða nást fyrr en eftir að Trump forseti hefur látið af störfum“.

Ljóst er að Trump mun þurfa að standa fyr­ir máli sínu í öld­unga­deild­ þings­ins en ekki er bú­ist við því að hann verði enn í embætti for­seta þegar hún tek­ur málið fyr­ir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert