Andlát: Guðjón Ingvi Stefánsson

Guðjón Ingvi Stefánsson.
Guðjón Ingvi Stefánsson.

Guðjón Ingvi Stefánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi, er látinn 82 ára að aldri. Hann lést á hjartadeild Landspítala eftir stutt veikindi.

Guðjón Ingvi giftist Guðrúnu Broddadóttur. Þau skildu. Börn þeirra eru Elín, hagfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Þorbjörn hjartalæknir og Stefán Broddi, sérfræðingur hjá Arion banka. Hann átti fimm systkini: 1) Árni Stefánsson, lektor við Kennaraháskóla Íslands, d. 2006, 2) stúlka sem lést á fyrsta ári, 3) Unnar Stefánsson, viðskiptafræðingur og fyrrverandi ritstjóri, 4) Guðmundur Stefánsson hljóðfærasmíðameistari, 5) Atli Stefánsson tæknifræðingur.

Guðjón var fæddur og uppalinn í Hveragerði. Foreldrar hans voru Elín Guðjónsdóttir húsfreyja og Stefán Jóhann Guðmundsson, byggingarmeistari og hreppstjóri í Hveragerði. Hann var stúdent frá Menntaskólanum að Laugarvatni 1959 og verkfræðingur frá DTH í Kaupmannahöfn 1968. Eftir heimkomu sína var hann verkfræðingur hjá Hochtief við hafnargerð í Straumsvík og hjá Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins.

Hann var framkvæmdastjóri Skáksambands Íslands þegar heimsmeistaraeinvígið í skák milli Bobbys Fischers og Boris Spasskys var haldið hér á landi 1972 og sat í stjórn Skáksambands Íslands 1969 til 1973.

Guðjón flutti ásamt fjölskyldu sinni í Borgarnes árið 1973 þegar hann varð fyrsti framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi. Því starfi sinnti hann til ársins 2000. Síðustu starfsárin kenndi hann stærðfræði við Tækniskólann.

Guðjón, sem var heyrnardaufur frá barnsaldri, starfaði ötullega að hagsmunamálum heyrnardaufra. Hann var þrívegis formaður Heyrnarhjálpar og sat um árabil í stjórn Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands, svæðisstjórn um málefni fatlaðra á Vesturlandi og stjórn Verndaðs vinnustaðar á Vesturlandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert