Brands rekinn en Benítez nýtur fulls trausts

Rafa Benítez á ekki sjö dagana sæla sem knattspyrnustjóri Everton …
Rafa Benítez á ekki sjö dagana sæla sem knattspyrnustjóri Everton en heldur þó starfi sínu. AFP

Enska knattspyrnufélagið Everton hefur rekið Hollendinginn Marcel Brands úr starfi yfirmanns knattspyrnumála en tilkynnti um leið að Rafa Benítez knattspyrnustjóri njóti enn fulls trausts stjórnar félagsins þrátt fyrir dapurt gengi að undanförnu.

Brands hefur sinnt starfi yfirmanns knattspyrnumála frá því árið 2018 og farið fyrir innkaupastefnu félagsins.

Á þessum tíma hefur liðið eytt yfir 300 milljónum punda án nokkurs sjáanlegs árangurs og því brá Everton á það ráð að láta Brands taka pokann sinn. Meðal undirmanna hans er Grétar Rafn Steinsson, fyrrverandi landsliðsmaður og leikmaður Bolton til margra ára.

Um leið hyggst félagið fara í ítarlega naflaskoðun þegar kemur að því að ákvarða hvernig strúktúr verði stuðst við í framhaldinu með það fyrir augum að ná betri árangri í framtíðinni.

Eftir að hafa byrjað vel á tímabilinu hefur Everton ekki unnið í síðustu átta deildarleikjum í röð. Þar af eru sex töp og tvö jafntefli.

Everton tekur á móti Arsenal í 15. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld klukkan 20 og verður leikurinn sýndur í beinni útsendingu á Símanum Sport.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert