Efstur á stigalistanum fyrstur Bandaríkjamanna

Collin Morikawa fór ekki tómhentur heim frá Dubai.
Collin Morikawa fór ekki tómhentur heim frá Dubai. AFP

Bandaríkjamaðurinn Collin Morikawa hefur átt góðu gengi að fagna á árinu og bætti við sigri á afrekaskrána í gær.

Morikawa sigraði á DP World Championship mótinu sem haldið var í Dubai en tilheyrir Evrópumótaröðinni. Var raunar um lokamót keppnistímabilsins á Evrópumótaröðinni að ræða og því til mikils að vinna.

Morikawa lauk keppni á samtals 17 höggum undir pari og lék lokahringinn á 66 höggum.

Morikawa varð jafnframt efstur á stigalista Evrópumótaraðarinnar og er fyrsti Bandaríkjamaðurinn til að afreka það. Hann sigraði á The Open á Englandi í sumar og taldi það drjúgt á stigalistanum. Fyrir efsta sætið á stigalistanum og sigurinn í lokamótinu fær Morikawa um 500 milljónir króna í verðlaunafé. 

Morikawa er 24 ára gamall og hefur tvívegis sigrað á risamótum í íþróttinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert