Fyrsta keppni nýs tímabils í kvöld

Skjáskot úr tölvuleiknum Gran Turismo.
Skjáskot úr tölvuleiknum Gran Turismo. Grafík/Polyphony Digital/Gran Turismo

Í dag hefst nýtt vortímabil neðri deildanna, Tier 2 og Tier 3, í GTS Iceland sem er íslensk mótaröð í hermikappakstri en seinni helmingur tímabilsins í Tier 1 fer einnig af stað.

Tímabil Tier 2 og Tier 3 stendur yfir í sextán vikur þar sem keppt er aðra hverja viku en tímabil Tier 1 stendur yfir í átta mánuði í senn.

Keppt er í hermikappakstursleiknum Gran Turismo Sport en í haust verður keppt í Gran Turismo 7.

Fyrsta keppni Tier 3 tímabilsins fer fram klukkan 20:00 í kvöld og fyrsta keppni Tier 2 tímabilsins fer fram klukkan 21:15 í kvöld.

Einnig fer fram keppni í Tier 1 klukkan 21:45 annað kvöld en öllum keppnum verður streymt frá í beinni á YouTube rásinni GTS Iceland.

Úrvalsdeildin

Tier 1 má kalla „Úrvalsdeildina“ en það er deildin sem hefur verið lifandi hvað lengst og er hún ætluð fyrir lengra komna leikmenn.

Þar sem keppnir eru langar og um margt að hugsa. Tímabilið í Tier 1 spannar um það bil átta mánuði. Núverandi tímabil hófst síðasta haust og lýkur í vor.

Tók stakkaskiptum

Tier 2 er lokuð undirdeild sem upphaflega var opna deildin sem tók við keppendum sem ekki náðu þátttökurétti í Tier 1 eða gátu af öðrum ástæðum ekki keppt þar. Í dag hefur deildin tekið stakkaskiptum og er í raun styttri útgáfa af Tier 1.

Á meðan Tier 1 keyrir eitt keppnistímabil í átta mánuði, þá skiptist Tier 2 í tvö styttri tímabil, vetrar- og vortímabil. Sigurvegari hvors tímabils ávinnur sér svo keppnisrétt í Tier 1, hafi hann áhuga á því.

Opin öllum

Tier 3 er opin deild sem þýðir að hún er opin öllum þeim sem ekki eru að keyra í Tier 1 eða Tier 2 og keppir því fjölbreyttur hópur ökumanna í deildinni.

Til dæmis má nefna þá sem ekki ná inngöngu eða þátttökurétt í Tier 1 eða Tier 2, þá sem vilja taka þátt í kappakstri án skuldbindinga eða jafnvel einstaklingar sem eru að stíga sín fyrstu skref í sportinu og vilja ná sér í reynslu á braut sem undirbúning fyrir þátttöku í efri deildunum síðar meir.

Nánari upplýsingar um deildirnar má finna á heimasíðu GTS Iceland en einnig er hægt að sækja um inngöngu í spjallhóp samfélagsins á Facebook. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert