Þetta var blóð, sviti og tár

Halldór Garðar Hermannsson
Halldór Garðar Hermannsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Keflvíkingar jöfnuðu undanúrslitaeinvígi sitt við Grindavík í Íslandsmóti karla í körfubolta með hádramatískum sigri í Reykjanesbæ í kvöld. Staðan í einvíginu er 1:1 en þrjá sigra þarf til að komast í úrslitaeinvígið gegn annað hvort Val eða Njarðvík.

Halldór Garðar Hermannsson fyrirliði Keflavíkur var kampakátur eftir leikinn og sagði þetta spurður út í leikinn:

„Þetta var blóð, sviti og tár eins og þeir segja. Eitt skot til eða frá og sem betur fer datt þetta okkar megin. Ég er bara í skýjunum með þetta."

Þetta var háspennuleikur sem endar á flautuþrist hjá Urban Oman en það sem ég spyr ég hvort þessir leikir séu ekki frekar farnir að líkjast MMA bardaga frekar en Körfubolta?

„Manni líður stundum þannig." sagði Halldór hlæjandi og hélt svo áfram:

„En á meðan að dómararnir setja ákveðna línu þar sem bæði lið vita hvað má og má ekki að þá er þetta bara allt í lagi. Annars dæma þeir bara óíþróttamannslega villu. Annars er ég gríðarlega ánægður með karakterinn í mínu liði. Það var margt sem hefði getað brotið okkur í kvöld en það gerði það ekki og við kláruðum þetta."

Grindavík er þremur stigum yfir og mjög stutt eftir. Þá héldu margir að þetta væri búið. Síðan klikkar Basile á vítaskoti og þið aftur inni í leiknum?

„Basile skyldi eftir dyrnar opnar fyrir okkur og við notfærðum okkur það. Þetta var geggjaður þristur hjá Urban. Ég verð líka að hrósa stuðningsmönnum okkar. Stuðningsmennirnir gáfu auka 10% og ég vill þakka þeim kærlega fyrir stuðninginn."

Eitthvað sem þitt lið gat gert betur í þessum leik?

„Já það eru alveg ákveðin atriði. Við erum lið sem reynir ekkert að greina of mikið sem við erum að gera. Við erum að keyra hraðan hátt. Stundum hittum við og stundum ekki. Við tökum skot oft snemma í skotklukkunni en ef það væri eitthvað eitt þá væri það að við töpuðum of mörgum boltum."

Lykillinn að þessum sigri er hver?

„Við þjöppuðum teiginn mjög vel. Þeir fengu ekki jafn mörg auðveld skot eins og síðast og svo eru fráköstin mjög mikilvæg á móti Grindavík og við gerðum mjög vel í því."

Hvað þarf að gera til að vinna Grindavík á þeirra heimavelli?

„Skjóta mjög vel af þriggja stiga línunni. Svo er það bara gamla tugga, berjast og fráköst," sagði Halldór í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert