Íslenski boltinn

Albert um Fylki: „Skortur á framherjum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fylkismenn eru nýliðar í Bestu-deild karla.
Fylkismenn eru nýliðar í Bestu-deild karla. vísir/hulda margrét

Albert Ingason hefur mestar áhyggjur af framlínu Fylkis. Liðinu er spáð 11. sæti Bestu deildar karla í spá íþróttadeildar Vísis og Stöðvar 2 Sports.

„Þetta gæti orðið upp og niður hjá Fylki í sumar. Þetta er ungt lið og ekki búið að styrkja sig mikið. Þetta gæti einkennst af einhverjum óstöðugleika,“ sagði Albert sem er einn sérfræðinga Stöðvar 2 Sports um Bestu deildina.

Markahæsti leikmaður Fylkis í fyrra, Mathias Laursen, sleit krossband í hné í vetur og verður ekkert með í sumar. Skarð hans gæti reynst vandfyllt.

„Þeir misstu Mathias sem skoraði fimmtán mörk í Lengjudeildinni í fyrra. Þeir hafa fengið inn Pétur Bjarnason frá Vestra en hann hefur enga reynslu í efstu deild,“ sagði Albert.

„Það er skortur á framherjum í Fylkisliðinu og breidd. Daði Ólafsson sleit krossband og breiddin í varnarlínunni og fremstu stöðum er það sem maður hefur áhyggjur af.“

Fyrsti leikur Fylkis í Bestu deildinni er gegn Keflavík 10. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×