Fyrsta umferðin á annan í páskum?

Víkingar eru ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar.
Víkingar eru ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar. Ljósmynd/Óttar Geirsson

Stefnt er að því að Íslandsmót karla í knattspyrnu hefjist hinn 18. apríl næstkomandi. Þetta kom fram á árlegum formanna- og framkvæmdastjórafundi KSÍ sem fram fór í höfuðstöðvum KSÍ, síðastliðinn laugardag.

Alls sátu ríflega 20 manns fundinn í Laugardalnum og þá voru tæplega 50 manns sem sátu hann í gegnum samfélagsmiðilinn Teams frá aðildarfélögum víðs vegar af landinu, auk fulltrúa KSÍ.

Íslandsmótið í efstu deild karla verður með öðruvísi sniði í ár, en undanfarin ár, en leikin verður tvöföld umferð með tólf liðum til að byrja með. Að henni lokinni tekur við úrslitakeppni efstu og neðstu sex liða deildarinnar þar sem leikin verður einföld umferð.

Það á ennþá eftir að samþykkja þessa breytingu en hún verður lögð fram á ársþingi KSÍ sem fram fer í febrúar á næsta ári.

Það stefnir því allt að liðin muni spila 27 leiki á komandi keppnistímabili, samanborið við 22 leiki undanfarin ár eða allt frá því að fjölgað var í tólf liða efstu deild árið 2008.

Ef tillagan með úrslitakeppni í efstu deild nær fram að ganga á ársþinginu mun Íslandsmótinu ljúka hinn 29. október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert