„Hundfúll að fá ekkert út úr þessu“

Bjarki Aðalsteinsson, fyrirliði Leiknis.
Bjarki Aðalsteinsson, fyrirliði Leiknis. Ljósmynd/Haukur Gunnarsson

Bjarki Aðalsteinsson, fyrirliði Leiknis úr Reykjavík, var svekktur eftir 1:2 tap fyrir Val í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld en kvaðst þess fullvis að fyrsti deildarsigur liðsins í sumar sé handan við hornið.

„Mér fannst þetta heilt yfir mjög góður leikur hjá okkur, sérstaklega seinni hálfleikurinn. Mér fannst við taka yfir leikinn og vera með boltann meirihluta seinni hálfleiks.

Við vorum að vinna boltann á hættulegum stöðum og þurftum bara að gera meira úr því. Ég er bara hundfúll yfir því að vera með yfirhöndina stærstan hluta leiksins en fá ekkert út úr þessu,“ sagði Bjarki í samtali við mbl.is eftir leik.

Leiknir er í næstneðsta sæti með aðeins 4 stig að loknum 10 umferðum, fjórum stigum frá öruggu sæti. Hvað þarf að gerast til þess að liðið kræki loks í fyrsta sigurinn í deildinni?

„Við erum að byggja á ótrúlega góðum grunni. Það er erfitt að segja en það vantar bara herslumuninn. Við komumst yfir núna tvo leiki í röð og missum niður forystuna fljótlega.

Mér líður eins og það þurfi rosalega lítið til þess að ná vélinni í gang. Staðan sem við erum í gefur alls ekki rétta mynd af gæðunum í þessu liði auk frammistöðunnar sem við erum að sýna.

Nú þurfa stigin bara að koma og miðað við andann og karakterinn í þessu liði þá koma þau,“ sagði hann og kvaðst bjartsýnn á að Leiknir muni ná að rétta úr kútnum.

„Ég hef engar áhyggjur af því. Það eru allir í kringum liðið og í liðinu bjartsýnir á það, engin spurning,“ sagði Bjarki að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert