Annað smit hjá Íslandspósti

Annar starfsmaður Íslandspósts hefur smitast af veirunni.
Annar starfsmaður Íslandspósts hefur smitast af veirunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Starfsmaður í póstmiðstöð Íslandspósts á Stórhöfða hefur greinst með kórónuveiruna og hafa fimmtán manns sem unnu með honum verið sendir í sóttkví.

Að sögn Brynjars Smára Rúnarssonar, upplýsingafulltrúa Íslandspósts, greindist smitið í gær. Starfsmaðurinn starfar í einu af hólfunum í húsinu og hefur það verið sótthreinsað, samkvæmt öryggisáætlun sem unnið er eftir.

Brynjar segir að smitið hafi engin áhrif á starfsemi fyrirtækisins. 

Starfsmenn póstmiðstöðvarinnar eru skyldugir til að bera grímur og sprittbrúsar eru víða um húsið, auk þess sem fólk er duglegt að þvo sér um hendurnar, að sögn Brynjars. Ekki er skylda að vera í hönskum. Bílstjórar Íslandspósts eru aftur á móti skyldugir til að nota bæði grímur og hanska.

Spurður hvort hætta sé á því að smit berist til fólks með bréfum, segir hann afar litlar líkur á því.

Fyrr í mánuðinum var pósthúsinu í Síðumúla lokað tímabundið vegna veirusmits hjá starfsmanni og var hópur starfsmanna sendur í sóttkví.

Uppfært 29/10 kl. 9.45:

Smitið sem kom upp gæti leitt til einhverja tafa í bréfadreifingu næstu daga, að sögn Brynjars. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert