Skel fjárfestingarfélag hagnaðist um 14,5-15,0 milljarða króna eftir skatta árið 2022, samkvæmt drögum að ársuppgjöri. Í afkomuviðvörun segir félagið að afkoman sé „talsvert umfram“ afkomuspá fyrir árið 2022 sem var birt samhliða uppgjöri fyrsta fjórðungs 2022 en þar var hagnaður eftir skatta áætlaður á bilinu 7,6-8,3 milljarðar króna.

„Ástæðan fyrir þessari breytingu er fyrst og fremst hagnaður vegna uppfærðs verðmats á óskráðum fjárfestingaeignum félagsins sem nemur samtals 9,8 [milljörðum króna].“

Áætlað eigið fé Skeljar fjárfestingarfélags í árslok 2022 er á bilinu 33,0 – 33,5 milljarðar króna.

Skel segist hafa fengið utanaðkomandi aðila til að verðmeta óskráðar eignir sem bókfærðar eru á einn milljarð eða meira. Verðmötin miðast við drög að rekstrarniðurstöðu ársins 2022 sem og rekstrar- og fjárfestingaráætlun stjórnenda félaganna fyrir rekstrarárin 2023-2025, auk annarra gagna og viðmiðunarfélaga.

Í töflunni, sem tekin er úr tilkynningu Skeljar, má sjá helstu forsendur verðmatanna fyrir hvert og eitt félag. Rekstrartölur eru án IFRS16.

Verðmatið var unnið af Erlendi Davíðssyni CFA. Upphaflegur verksamningur var gerður við Birtir Capital Partners, en fluttist svo til Kviku banka þegar Erlendur tók við starfi forstöðumanns fyrirtækjaráðgjafar bankans.

Skel tekur fram að framangreindar upplýsingarnar eru bráðabirgðamat og ekki byggðar á endanlegu uppgjöri eða endurskoðuðum niðurstöðum. Félagið mun birta ársuppgjör 2022 eftir lokun markaða þann 7. febrúar 2023.

Hlutabréf Skeljar hafa hækkað um 7,5% eftir að félagið sendi frá sér tilkynninguna. Gengi félagsins stendur í 17,2 krónum á hlut þegar fréttin er skrifuð.