Fjöldi fólks í einangrun að ósekju?

Bergþór Ólason.
Bergþór Ólason. mbl.is/​Hari

Við skimanir innanlands hefur ekki verið gerður greinarmunur á virkum og óvirkum smitum heldur hafa allir verið settir undir sama hatt og allir sem greindir eru smitaðir settir í einangrun,“ sagði Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, á Alþingi. Hann spurði hvort hugsanlegt væri að fjöldi fólks, á fjórða þúsund, væri í einangrun að ósekju.

„Með skimun ferðamanna á landamærum var komist að því að stór hluti þeirra sem greindust smitaðir var ekki með virkt smit. Tölur benda til að það ætti við um fjórðung þeirra sem greindust á landamærunum. Aðrar tölur benda til að innan lands gæti þetta hlutfall verið nær þriðjungi,“ sagði Bergþór.

Hann sagði að rúmlega 200 starfsmenn Landspítalans væru í einangrun og gætu því ekki sinnt starfi sínu. „Af þeim eru sennilega 50 til 70 manns í stofufangelsi að ósekju, sé hlutfall gamalla smita það sama í þeim hópi og á landamærunum.

Bergþór sagðist hafa spurt ráðherra um málið fyrir helgi og bjóst við að þessu yrði kippt í liðinn í einum grænum. 

„Það kemur því á óvart að enn séu 200 starfsmenn Landspítalans í einangrun samkvæmt upplýsingum á vef Landspítalans rétt í þessu, á fimmta degi eftir að ráðherra sagði að hann myndi leita upplýsinga og útskýringa hvað þetta varðar,“ sagði Bergþór.

Starfsmenn líklega í einangrun vegna virkra smita

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sagðist ekki hafa fengið staðfestan muninn á óvirkum á virkum smitum á landamærum og innanlands. Hann sagði þá sem fái staðfest smit í skimun fari í einangrun og geti útskrifast eftir sjö daga.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég geri ráð fyrir að þessir 200 starfsmenn séu í einangrun þess vegna. En ég hef ekki fengið neinar staðfestar tölur um það sem hæstvirtur þingmaður dregur hér fram,“ sagði Willum.

Bergþór sagðist varla trúa því að þetta hafi ekki verið skoðað, hafandi það í huga að Landspítalinn er á neyðarstigi vegna mönnunar og á sama tíma séu 50 til 70 starfsmenn spítalans mögulega í einangrun með gamalt, óvirkt smit.

„Og þetta er ekki einu sinni skoðað. Það er hreinlega ótrúlegt. Ég vil spyrja hæstvirtan heilbrigðisráðherra: Ætlar hann að nálgast þetta með óbreyttum hætti og ekki einu sinni láta skoða hvort það geti verið raunin að 50 til 70 starfsmenn Landspítalans séu í stofufangelsi með óvirkt smit?“ spurði Bergþór.

„Hér setur þingmaður fram þá kenningu að það kunni að vera að fjórðungur smita séu óvirk smit sem komi í ljós á landamærum og heimfærir það hér upp á þá sem eru í einangrun, og síðan það að það eigi þá við um þá 200 starfsmenn sem ekki eru á gólfinu á Landspítalanum. Þessi kenning hefur ekki verið vefengd eða staðfest, það er það sem ég sagði hér í mínu fyrra svari,“ sagði Willum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert