Hafði unnið 19 vaktir á 16 dögum

Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, bar vitni í máli hjúkrunarfræðingsins sem …
Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, bar vitni í máli hjúkrunarfræðingsins sem er ákærð fyrir að verða sjúklingi að bana. mbl.is/Arnþór

Runólfur Pálsson, forstjóri LSH, bar í dag vitni í máli Steinu Árnadóttur, hjúkrunarfræðingsins sem er ákærð fyrir að verða sjúklingi á geðdeild að bana. Verjandi Steinu gerði athugasemdir við að aðeins Steina hefði hlotið réttarstöðu sakbornings, en ekki aðrir starfsmenn eða stofnunin LSH.

Runólfur var kallaður inn sem vitni af verjanda hinnar ákærðu, Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni, en hann var ekki beðinn um að svara neinum spurningum. Runólfur sat varla inni í dómsal í meira en eina mínútu, en hann var aðeins beðinn um að staðfesta tilkynningu sem LSH gaf út í kjölfar atviksins.

Runólfur staðfesti að hann hefði skrifað tilkynninguna og að hann standi við eftirfarandi ummæli:

„Spítalanum þykir miður að hafa brugðist starfsfólki sem starfaði við ófullnægjandi aðstæður á þessum tíma.“

19 vaktir á 16 dögum

Sjúklingurinn sem um ræðir var innlagður á geðdeild A33 þegar hann veiktist illa af lungnabólgu. Starfsmenn deildarinnar sendu sjúklinginn á bráðavakt í von um að hann fengi pláss á lyflækningadeild, en svo var ekki og var konan því send aftur á geðdeild. Deildin er ekki til þess gerð að annast svo líkamlega veika sjúklinga, en var það metið eina úrræðið í aðstæðunum, þar sem sjúklingi leið mjög andlega illa á bráðadeildinni. 

Yfirlæknir á LSH sem framkvæmdi rótargreiningu á málinu sagði margt hafa farið úrskeiðis í atburðarás sem leiddi til atviksins. Hjúkrunarfræðingurinn hefði verið einn með ungum aðstoðarmönnum og hafi mönnun verið ófullnægjandi.

Þá sagði hún hjúkrunarfræðinginn hafa tekið 19 vaktir á 16 dögum, þar sem hún tók að sér sjö aukavaktir vegna mönnunarvanda.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi hjúkrunarfræðingsins.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi hjúkrunarfræðingsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvaða gögn mega ekki líta dagsins ljós?

Hver tók ákvörðun um hver væri með réttarstöðu sakbornings og af hverjum var hún tekin? Rannsóknarlögreglumaður gat ekki svarað hvers vegna aðeins hjúkrunarfræðingurinn hlaut réttarstöðu sakbornings en ekki hinir starfsmennirnir. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi hinnar ákærðu, hefur skorað á ákæruvaldið að taka inn frumgögn rannsóknarlögreglu þar sem LSH er mögulegur sakborningur.

Þá átti hann orðaskipti við saksóknara í hléinu, þar sem hann spurði ítrekað hvers vegna gögn úr frumskýrslu hefðu ekki verið tekin til skoðunar í málinu og spurði „hvaða gögn eru það sem mega ekki líta dagsins ljós?"

Spurði ítrekað út í vitnaleiðslu LSH

Kona sem starfar í stuðnings- og ráðgjafateymi LSH var einnig kölluð til sem vitni, en hún sendi tölvupóst þar sem hún bauð starfsmönnunum og lækni, sem báru vitni í málinu, á fund í aðdraganda málsins. 

Verjandi hinnar ákærðu spurði hvort það væri viðeigandi að boða vitni í vitnaleiðslu, en starfsmaðurinn kvaðst hafa fengið fyrirmæli frá skrifstofu forstjóra um að fara yfir form dómferlisins með starfsmönnum, sem voru kvíðnir fyrir aðalmeðferðinni. Höfðu þær allar afþakkað slíkan stuðning, en ein þeirra beðið um persónulegan stuðning vegna málsins.

Þá velti verjandi fyrir sér fyrir dómnum hvort kalla þyrfti vitni aftur, þar sem hann taldi vitni hafa haldið samráðsfundum leyndum.

Atvikið átti sér stað á geðdeild A33.
Atvikið átti sér stað á geðdeild A33. Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert