Allir með á glæsilegum leikvangi

Jóhann Berg Guðmundsson æfði af fullum krafti í dag.
Jóhann Berg Guðmundsson æfði af fullum krafti í dag. Ljósmynd/Alex Nicodim

Karlalandsliðið í fótbolta hóf æfingu á Tarczynski-leikvanginum í Wroclaw í Póllandi laust fyrir klukkan 15 í dag en þetta er lokaæfingin fyrir stórleikinn gegn Úkraínu annað kvöld þar sem sæti á EM 2024 í Þýskalandi er í húfi.

Allir 24 leikmennirnir voru með af fullum krafti á þeim rúmlega fimmtán mínútum sem fjölmiðlafólk fékk að fylgjast með æfingunni. Þar með taldir Jóhann Berg Guðmundsson og Arnór Ingvi Traustason sem helst voru tæpir.

Arnór Ingvi Traustason á fullri ferð á æfingunni.
Arnór Ingvi Traustason á fullri ferð á æfingunni. Ljósmynd/Alex Nicodim

Jóhann gat ekki spilað gegn Ísrael á fimmtudagskvöldið vegna eymsla í læri og Arnór Ingvi þurfti að fara af velli eftir rúmlega 60 mínútna leik þar sem hann fann fyrir taki í læri. Báðir virðast þeir hafa hrist þetta af sér.

Leikvangurinn er glæsilegur, einn sá stærsti í Póllandi, en hann var tekinn í notkun árið 2011 og reistur sérstaklega vegna úrslitakeppni EM 2012 sem Pólverjar og Úkraínumenn héldu í sameiningu.

Guðlaugur Victor Pálsson og Alfreð Finnbogason, samherjar hjá Eupen í …
Guðlaugur Victor Pálsson og Alfreð Finnbogason, samherjar hjá Eupen í Belgíu, fremstir í flokki í upphitun. Ljósmynd/Alex Nicodim

Tarczynski Arena rúmar tæplega 45 þúsund áhorfendur og útlit er fyrir að hann fari langt með að verða fullur enda er mikill áhugi hjá Úkraínumönnum fyrir leiknum og þeir munu fjölmenna til Wroclaw í þennan „heimaleik“ sinn. Sem kunnugt er hafa þeir ekki getað spilað á eigin heimavelli síðan Rússar réðust inn í landið fyrir rúmlega tveimur árum.

Eftir æfinguna munu Åge Hareide þjálfari og Sverrir Ingi Ingason varafyrirliði sitja fyrir svörum á fréttamannafundi.

Alex Nicodim ljósmyndari Morgunblaðsins var á æfingunni í dag og tók meðfylgjandi myndir.

Sverrir Ingi Ingason varafyrirliði Íslands.
Sverrir Ingi Ingason varafyrirliði Íslands. Ljósmynd/Alex Nicodim
Åge Hareide og Jóhannes Karl Guðjónsson fylgjast með.
Åge Hareide og Jóhannes Karl Guðjónsson fylgjast með. Ljósmynd/Alex Nicodim
Heimavöllur Slask Wroclaw er glæsilegt mannvirki.
Heimavöllur Slask Wroclaw er glæsilegt mannvirki. Ljósmynd/Alex Nicodim
Jóhann Berg Guðmundsson á æfingunni í dag.
Jóhann Berg Guðmundsson á æfingunni í dag. Ljósmynd/Alex Nicodim
Íslensku leikmennirnir búa sig undir æfinguna.
Íslensku leikmennirnir búa sig undir æfinguna. Ljósmynd/Alex Nicodim
Hákon Rafn Valdimarsson markvörður.
Hákon Rafn Valdimarsson markvörður. Ljósmynd/Alex Nicodim
Jón Dagur Þorsteinsson.
Jón Dagur Þorsteinsson. Ljósmynd/Alex Nicodim
Albert Guðmundsson.
Albert Guðmundsson. Ljósmynd/Alex Nicodim
Stefán Teitur Þórðarson kom til móts við liðið eftir að …
Stefán Teitur Þórðarson kom til móts við liðið eftir að Arnór Sigurðsson datt út vegna meiðsla í leiknum við Ísrael. Ljósmynd/Alex Nicodim
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert