Alexandra vann en Guðný tapaði á Ítalíu

Alexandra Jóhannsdóttir og Guðný Árnadóttir með íslenska landsliðinu í sumar.
Alexandra Jóhannsdóttir og Guðný Árnadóttir með íslenska landsliðinu í sumar. mbl.is/Hákon

Íslendingar voru í eldlínunni í ítölsku knattspyrnunni í dag. Alexandra Jóhannsdóttir var í byrjunarliði Fiorentina sem vann Como 3:2 og Guðný Árnadóttir lék allan leikinn í vörn AC Milan sem tapaði 2:0 fyrir Roma.

Fiorentina komst í 2:0 á fyrstu fjórum mínútum leiksins með mörkum frá Zsanett Bernadet Kajan og Miriam Longo. Longo bætti svo við þriðja markinu eftir tæpan klukkutíma áður en Como klóraði í bakkann með mörkum frá Julia Karlernas og Chiara Beccari. Alexöndru var skipt af velli á 84. mínútu í stöðunni 3:1.

Eins og áður sagði lék Guðný allan leikinn í vörn AC Milan í tapi gegn Roma. Manuela Giugliano skoraði bæði mörk Roma í leiknum.

Eftir 11 umferðir er Fiorentina í þriðja sæti deildarinnar með 22 stig. AC Milan er í fimmta sæti með 16 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert