Konurnar gætu fylgt í fótspor karlanna

Valur er ríkjandi Íslandsmeistari í kvennaflokki.
Valur er ríkjandi Íslandsmeistari í kvennaflokki. mbl.is/Kristinn Magnússon

Starfshópur á vegum KSÍ leggur til að breytingar verði gerðar á efstu deild kvenna í knattspyrnu frá og með keppnistímabilinu 2023. Þetta kom fram á árlegum formanna- og framkvæmdastjórafundi KSÍ sem fram fór í höfuðstöðvum KSÍ, síðastliðinn laugardag.

Starfshópinn skipuðu þau Harpa Þorsteinsdóttir, Þorsteinn H. Halldórsson, Linda H. Þórðardóttir, Ingibjörg A. Guðmundsdóttir, Ragnhildur Skúladóttir og Harpa Frímannsdóttir.

Tillaga starfshópsins er á þann veg að áfram verði stuðst við tíu liða deild líkt og verið hefur frá árinu 2008. 

Leiknar verða tvær umferðir og að þeim loknum verður mótinu skipt upp í efri hluta og neðri hluta en í efri hlutanum verða sex lið og í neðri hlutanum fjögur lið þar sem spiluð verður einföld umferð.

Í efri hlutanum munu sex lið leika um Íslandsmeistaratitilinn og Evrópusæti en keppni í neðri hlutanum snérist um að bjarga sér frá falli.

Kosið verður um tillögu starfshópsins á ársþingi Knattspyrnusambandsins í febrúar næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert