Sniðganga Vetrarólympíuleikana

Bandaríkin ætla ekki að senda fyrirmenni til Peking.
Bandaríkin ætla ekki að senda fyrirmenni til Peking. AFP

Bandarísk stjórnvöld tilkynntu nú fyrir stundu að þau myndu sniðganga Vetrarólympíuleikana í Peking, sem eiga að fara fram á næsta ári, í mótmælaskyni við ýmis mannréttindabrot Kínverja. 

Sniðgangan mun einungis ná til stjórnmálamanna, embættismanna og annarra erindreka Bandaríkjastjórnar, og er ekki gert ráð fyrir að bandarískum íþróttamönnum verði meinað að taka þátt á leikunum sjálfum. 

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í síðasta mánuði að hann væri að íhuga slíka sniðgöngu, en tilgangur hennar er að senda skilaboð til kínverskra stjórnvalda, án þess að þátttöku bandarískra íþróttamanna á leikunum sé teflt í hættu. 

Bandaríkin hafa einu sinni áður sniðgengið Ólympíuleikana, en Jimmy Carter, þáverandi Bandaríkjaforseti dró Bandaríkin alfarið frá Sumarólympíuleikunum í Moskvu árið 1980 í mótmælaskyni við innrás Sovétríkjanna í Afganistan. Sovétmenn svöruðu í sömu mynt með því að sniðganga Ólympíuleikana í Los Angeles fjórum árum síðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert