Í gær sinnti hópur á hálendisvakt björgunarsveita um tólf klukkustunda útkalli við leit að göngufólki sem hafði ekki skilað sér í skála.
Veðrið hafði gert hópnum, sem var á leið um Laugaveginn, erfitt fyrir og þegar nokkrir úr honum höfðu ekki skilað sér í skála í Álftavatni var hafin leit að þeim.
Eftir um átta klukkustunda leit í slæmu skyggni fannst tjald þeirra á fjallshrygg en þar höfðu þau sett niður tjaldið, ekki treyst sér til að tjalda á snjó sem var allt í kring.
Í tilkynningu frá Landsbjörg segir að vel hafi farið í þessu tilviki en „nauðsynlegt er að benda á að áætla þarf aukinn tíma í lengri göngur á hálendinu á næstunni og afla sér upplýsinga um aðstæður.“