Stólarnir mörðu Blika í stórkostlegum leik

Pétur Rúnar Birgisson átti stórleik í liði Tindastóls í kvöld.
Pétur Rúnar Birgisson átti stórleik í liði Tindastóls í kvöld. Unnur Karen

Tindastóll bar sigurorð af Breiðabliki í þriðju umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik, Subway-deildarinnar, í mögnuðum körfuboltaleik. Liðin gátu vart hætt að skora og vann Tindastóll að lokum 120:117.

Eins og lokatölurnar gefa til kynna var varnarleikur ekki í hávegum hafður í leiknum á Sauðárkróki í kvöld.

Tindastóll leiddi með tveimur stigum eftir æsispennandi fyrsta leikhluta, 33:31.

Í öðrum leikhluta sigldu Stólarnir fram úr Blikum og bættu við 42 stigum á móti aðeins 23 hjá gestunum. Staðan í hálfleik því 75:54.

Blikar mættu dýrvitlausir til leiks í síðari hálfleik og eignuðu sér þriðja leikhlutann hreinlega með því að saxa vel á forskot heimamanna. Staðan að honum loknum 91:82.

Fyrri hluta fjórða og síðasta leikhluta náðu Stólarnir aftur góðum tökum á leiknum og náðu mest 13 stiga forystu í leikhlutanum, 106:93.

Ekki frekar en fyrr í leiknum voru Blikar á því að gefast upp og tóku leikinn fyllilega yfir síðari hluta fjóða leikhluta.

Tindastóll komst í 116:106 þegar rúm mínúta var eftir en Blikar söxuðu stöðugt á forskot heimamanna og þegar 25 sekúndur voru eftir á leikklukkunni var munurinn orðinn aðeins tvö stig, 116:114.

Eftir æsispennandi lokasekúndur höfðu Stólarnir nauman þriggja stiga sigur og eru á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir þrjá leiki.

Hjá Tindastóli var Pétur Rúnar stigahæstur með 26 stig og skammt undan var Taiwo Badmus með 23 stig.

Hjá Breiðabliki var Danero Thomas stigahæstur með 21 stig en Everage Richardson átti stórleik og náði tvöfaldri tvennu þegar hann skoraði 20 stig, tók 13 fráköst og gaf átta stoðsendingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert