Sóttu blauta og kalda ferðalanga að Fjallabaki

Frá vettvangi í kvöld, eftir að björgunarsveitir voru komnar á …
Frá vettvangi í kvöld, eftir að björgunarsveitir voru komnar á staðinn. Ljósmynd/Erling Gíslason

Tveir ferðalangar sem voru að ferðast á gönguskíðum að Fjallabaki báðu um aðstoð björgunarsveita síðdegis í dag. Tjald ferðalanganna hafði gefið sig í því veðri sem geisaði á þessum slóðum og voru þeir orðnir blautir og kaldir, að því er segir í tilkynningu frá Landsbjörg.

Björgunarsveitir frá Hellu og Hvolsvelli fóru á fjórum bílum með vélsleða, en staðsetning ferðalanganna var samkvæmt neyðarkalli þeirra rétt norðan Hnausapolls skammt frá Landmannalaugum.

Björgunarsveitir á leið á staðinn eftir snæviþöktum veginum.
Björgunarsveitir á leið á staðinn eftir snæviþöktum veginum. Ljósmynd/Kristjana Margrét Óskarsdóttir

Þokkalega á sig komin

Ferð sveitanna sóttist vel og upp úr klukkan 18 í kvöld fannst fólkið, á þeim stað sem neyðarsendingin gaf upp sem staðsetningu.

Þau voru þokkalega á sig komin, en blaut og köld, og voru fegin að komast í hlýjan bíl björgunarsveitar og komast þar í þurr föt.

Hópurinn er á leið til byggða þar sem gönguskíðafólkið mun komast á hótel á Hellu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert