Sport

Þrettán ára gömul með Ólympíugull

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Momiji Nishiya sýnir gullverðlaunin sem hún vann í nótt.
Momiji Nishiya sýnir gullverðlaunin sem hún vann í nótt. AP/Ben Curtis

Japanska hjólabrettakonan Nishiya Momiji vann í nótt Ólympíugull í götukeppni á hjólabrettum á Ólympíuleikunum í Tókýó.

Heimakonan hafði betur eftir mikla baráttu við hina brasilísku Rayssu Leal. Momiji endaði með 15,26 stig en Leal varð önnur með 14,64 stig.

Þetta er í fyrsta sinn sem keppt er á hjólabrettum á Ólympíuleikum en það var ekki það eina sögulega við keppnina.

Það sem vekur nefnilega sérstaka athygli er að gull og silfurverðlaunahafarnir eru báðar bara þrettán ára gamlar. Nishiya Momiji er fædd 30. ágúst 2007 og er því komin með Ólympíugull um hálsinn aðeins þrettán ára og 330 daga gömul. Rayssa Leal er fædd í janúar 2008 og er því enn yngri.

Momiji er þriðji yngsti gullverðlaunahafi á Ólympíuleikunum frá upphafi. Metið á ennþá hin bandaríska Marjorie Gestring sem vann gull í dýfingum á Ólympíuleikunum í Berlín 1936 þá aðeins 13 ára og 267 daga gömul eða 63 dögum yngri en Nishiya.

Momiji hafði unnið silfur á heimsmeistaramótinu en heimsmeistarinn, Aori Nishimura, varð bara áttunda í úrslitunum í nótt. Hún er nítján ára gömul. Rayssa Leal fékk brons á HM.

Funa Nakayama frá Japan, sem er sextán ára, var efst eftir undanrásirnar en varð að sætta sig við að fá bronsverðlaunin.

Nishiya kláraði sínar æfingar á undan og þær Rayssa og Funa fengu því tækifæri til að komast upp fyrir hana í lokatilraun sinni. Rayssa datt í sinni æfingu og Funa gerði líka mistök.

Á pallinum voru því tvær þrettán ára stelpur og ein sextán ára. Meðalaldur verðlaunahafa í greininni var því aðeins fjórtán ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×