Tvíbrotnaði á Akureyri

Helga Guðrún Kristinsdóttir og Guðrún Karítas Sigurðardóttir.
Helga Guðrún Kristinsdóttir og Guðrún Karítas Sigurðardóttir. Ljósmynd/Fylkir

Knattspyrnukonan Helga Guðrún Kristinsdóttir, leikmaður Fylkis, tvíbrotnaði á hendi í leik liðsins gegn Tindastóli í 4. umferð Bestu deildar kvenna á Akureyri í gær.

Það er fótbolti.net sem greinir frá þessu en leiknum lauk með öruggum sigri Tindastóls, 3:0.

Í frétt fótbolta.net kemur meðal annars fram að Helga Guðrún hafi farið úr lið á litla fingri í leiknum og að henni hafi svo verið kippt í lið af lækni sem var í stúkunni á Akureyri.

Í hálfleik fór hún svo á sjúkrahúsið á Akureyri þar sem kom í ljós að hún væri tvíbrotin á hendinni og þarf hún að gangast undir aðgerð vegna meiðslanna. Ekki er ljóst hversu lengi hún verður frá.

Helga Guðrún, sem er fædd árið 1997, er uppalinn í Grindavík og á að baki 36 leiki í efstu deild þar sem hún hefur skorað þrjú mörk en Fylkir er með 5 stig í sjötta sæti deildarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert