„Markmiðum má ekki breyta í sífellu“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segist hafa verið talsmaður meðalhófs á …
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segist hafa verið talsmaður meðalhófs á fundum þar sem teknar eru ákvarðanir um aðgerðir vegna faraldursins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir það vera skyldu þeirra sem sitja í ríkisstjórn að tryggja áfram festu og skýrleika varðandi ákvarðanir hverju sinni, sem snúa að faraldrinum. Áslaug greinir frá þessari skoðun sinni í færslu á Facebook.

Ríkisstjórnin kynnti hertar aðgerðir á landamærum í gær en þær taka gildi 26. júlí næstkomandi. Þær felast í því að bólusettir ferðamenn þurfa að framvísa neikvæðum niðurstöðum úr PCR-prófi við komuna. Þeir voru áður undanskildir slíkri reglu. Einnig verður mögulegt að framvísa neikvæðu mótefna-hraðprófi.

Þar að auki verður mælst til þess að þeir sem búsettir eru hér á landi eða hafa hér tengslanet fari í sýnatöku sólarhring eftir komuna til landsins. Það verður þó ekki skylda frekar en framvísun PCR-prófa.

Í samtölum ráðherra við blaðamenn eftir ríkisstjórnarfundinn í gær mátti greina minni einingu um sóttvarnaaðgerðir en áður. 

Áslaug segir það vera öfugmæli að líkja því við að ráðherra skipi sér í stjórnarandstöðu þegar reifuð eru ólík sjónarmið á fundum ríkisstjórnarinnar: „Þvert á móti sýnir reynslan að skoðanaskipti meðal ráðherra hafa leitt til farsællar niðurstöðu. Markmiðum má ekki breyta í sífellu og oft er gott að rifja upp hverju við ætluðum að ná í upphafi farsóttarinnar,“ skrifar Áslaug.

Standa verði við loforð gagnvart almenningi

Í færslunni segir hún ríkisstjórnina hafa staðið saman um þær ákvarðanir sem teknar hafa verið, að undangengnum umræðum í ríkisstjórn, sem sé í anda lýðræðislegra stjórnarhátta.

„Þetta á einnig við um þessa síðustu ákvörðun þar sem ég sá ekki ástæðu til að gera ágreining um niðurstöðuna. Ég benti hins vegar á mikilvægi þess að endurmeta stöðuna í ljósi fjölda þeirra sem hér eru bólusettir og mikilvægi þess að standa við það sem almenningi hefur áður verið sagt og lofað; að breyta ekki um stefnu nema að vel athuguðu máli,“ skrifar hún í framhaldinu.

Alls greindust 38 innanlandssmit í gær og voru þar af níu í sóttkví. Sóttvarnalæknir sagði í samtali við mbl.is í dag að smitin hefðu dreift sér en flestir sem hafa greinst eru bólusettir. Þá sagði hann einnig að hinir smituðu væru einkennalitlir og meðalaldur þeirra um 30 ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert