Eriksen má ekki spila með hjartastillinn

Christian Eriksen í leik Dana og Finna á Parken þar …
Christian Eriksen í leik Dana og Finna á Parken þar sem atvikið átti sér stað. AFP

Christian Eriksen getur ekki leikið áfram með Inter Mílanó eða öðru ítölsku liði ef hann heldur áfram að spila fótbolta í kjölfar hjartastoppsins sem hann varð fyrir í leik Dana og Finna á EM í sumar.

Eriksen fékk umræddan hjartastilli græddan í sig til að koma í veg fyrir frekari vandamál en ekki er leyfilegt að spila með slíkan búnað á Ítalíu. Þetta sagði Francesco Braconaro, meðlimur í tækninefnd ítalska knattspyrnusambandsins, í útvarpsviðtali.

„Ef hjartastillirinn er fjarlægður, er búið að staðfesta að meinið sé úr sögunni, og þá getur hann leikið með Inter,“ sagði Braconaro en reglurnar munu gilda almennt um allt íþróttafólk á Ítalíu, ekki bara í knattspyrnunni.

Knattspyrnuvefurinn Football Italia fjallar um þetta og þar er sagt að Daley Blind, landsliðsmaður Hollands, sé með sams konar hjartastilli græddan í sig. Hann geti spilað með hollenska landsliðinu og Ajax en honum yrði aldrei leyft að spila með ítölsku liði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert