Kom aldrei til greina að spila fyrir England

Úr leiknum í kvöld.
Úr leiknum í kvöld. AFP

„Þetta var erfið staða að koma inn á á þessum tímapunkti í leiknum,“ sagði Ísak Bergmann Jóhannesson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við Stöð 2 Sport eftir 4:0-tap íslenska liðsins gegn Englandi í Þjóðadeild UEFA á Wembley í London í kvöld.

Ísak er einungis 17 ára gamall en hann var að leika sinn fyrsta A-landsleik en hann hefur verið fastamaður í U21-árs landsliðinu að undanförnu.

„Við vorum 4:0-undir en ég er engu að síður virkilega þakklátur fyrir tækifæri og traustið. Það var smá fiðrildi í maganum á mér þegar að ég kom inn á en það er aldrei verra.

Það fá ekki allir knattspyrnumenn tækifæri til þess að spila á Wembley og ég er fyrst og fremst þakklátur eftir þennan leik,“ sagði Ísak.

Ísak er fæddur á Englandi og var um tíma orðaður við enska landsliðið en hann er eftirsóttur af stærstu liðum Evrópu, þrátt fyrir ungan aldur.

„Ég var allan daginn að fara spila fyrir íslenska landsliðið enda búið að vera markmið hjá mér lengi og það kom aldrei til greina að ég væri að fara spila fyrir England,“ bætti Ísak við í samtali við Stöð 2 Sport.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert