Djokovic boðaður í viðtal

Novak Djokovic bíður niðurstöðu í sínum málum í Melbourne.
Novak Djokovic bíður niðurstöðu í sínum málum í Melbourne. AFP

Novak Djokovic, fremsti tennismaður heims, hefur verið boðaður til viðtals hjá áströlsku innflytjendastofnuninni á morgun, laugardag.

Hann verður frjáls fram að þeim fundi, samkvæmt ástralska blaðinu The Age, en áströlsk yfirvöld ógildu vegabréfsáritun hans í annað sinn í morgun.

Samkvæmt The Age fara nú viðræður fram á milli fulltrúa áströlsku ríkisstjórnarinnar og lögmanna Djokovic.

Fréttastofa Reuters skýrir frá þessu og segir að innflytjendaráðherrann Alex Hawke eða talsmenn hans hafi ekki enn svarað beiðnum um viðbrögð.

Djokovic kom til Ástralíu á fimmtudag í síðustu viku en var sendur í einangrun í Melbourne þar sem vegabréfsáritun hans var ekki tekin gild á þeim forsendum að hann væri ekki með tilskilin leyfi þar sem hann væri ekki bólusettur fyrir kórónuveirunni.

Dómari í Melbourne hnekkti þeim úrskurði á mánudag og frá þeim tíma hefur Djokovic æft að kappi í borginni til að búa sig undir Opna ástralska mótið sem hefst á mánudag en Djokovic hefur unnið það síðustu þrjú ár.

Hann á nú hinsvegar yfir höfði sér að mega ekki koma aftur til Ástralíu næstu þrjú árin, standi sú ákvörðun yfirvalda að vegabréfsáritun hans sé ógild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert