„Hjólakraftur er alls konar fyrir alls konar“

Þorvaldur hefur fengið úthlutað gamal athafnarsvæði Björgunar við Sævarhöfða. Þar …
Þorvaldur hefur fengið úthlutað gamal athafnarsvæði Björgunar við Sævarhöfða. Þar er nú áformað að koma upp miðstöð fyrir skapandi ungmennastarf og bíður Þorvaldur spenntur eftir að kórónuveirufaraldrinum ljúki. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á Sævarhöfða var um langt skeið athafnasvæði Björgunar, en í dag stefnir í að þar verði miðstöð fyrir skapandi ungmennastarf þar sem starfsemi Hjólakrafts verður í forgrunni, en einnig alls konar spennandi jaðarstarfsemi. Þegar faraldurinn fór af stað í fyrra hrundi svo gott sem öll starfsemi Hjólakrafts og Valdi segir að í haust hafi hann staðið frammi fyrir því að leggja árar í bát eða fara að byggja starfsemina enn frekar upp, þrátt fyrir tekjuleysi. Hann hafi ákveðið að taka slaginn, enda telji hann að vöntun verði á afþreyingu við hæfi fyrir börn og unglinga þegar faraldrinum ljúki.

Blaðamaður hefur í mörg ár hjólað reglulega eftir Sævarhöfðanum, fram hjá Sorpustöðinni á leið upp í Grafarvog, en aldrei dottið í hug að athafnasvæði Björgunar yrði einhvern tímann hentugt svæði fyrir ungmennastarf og miðstöð fyrir hjólreiðafólk. Það er þó ljóst að Valdi hefur miklar hugmyndir fyrir svæðið, þó að þær verði að öllum líkindum einungis tímabundnar, enda er svæðið aðeins leigt út til tveggja ára, en unnið er að því að stækka landfyllinguna út í sjó og að svæðið verði uppbyggingarsvæði í tengslum við uppbyggingu á Höfðanum.

Fjölbreytt starfsemi næstu tvö ár

Reykjavíkurborg á byggingarnar og svæðið eftir að Björgun flutti starfsemi sína og var í fyrra ákveðið að bjóða það, ásamt tveimur öðrum reitum, út til leigu í nokkur ár fyrir skapandi og líflega starfsemi. Valdi segir að hann hafi sótt um og fengið Sævarhöfðann. Þar var um að ræða gömlu skrifstofur Björgunar sem eru samtengdar stóru sementssílóunum sem og verkstæði sem stendur nær sjónum. Á lóðinni eru einnig önnur hús, en þar er meðal annars hljómsveitaaðstaða í gamla vigtunarhúsinu og hjólaskautaaðstaða (roller derby) í öðru nærliggjandi húsi.

Valdi hefur þegar fengið tvö félög til samstarfs og verða þau í verkstæðishúsinu. Annars vegar er það sirkuslistahópurinn Hringleikur og hins vegar Parkour Ísland. Segir Valdi að þótt félögin séu þar á eigin vegum horfi þau til þess að eiga gott samstarf, meðal annars þegar komi að því að bjóða upp á fjölbreytt starf fyrir börn og ungmenni.

Getur ekki bara verið innipúki

Upphaflega var hugmyndin að Hjólakrafti að útvega börnum og unglingum, sem mögulega voru ekki að finna sig í skólakerfinu, vettvang til að finna sína köllun. Var það jafnan gert í gegnum hjólreiðar, en hver og einn átti að geta hjólað á sínum hraða og markmiðið var að styrkja félagslegu tengslin. Fljótlega voru nokkrir sem náðu miklum framförum í hjólreiðunum og ákváðu nokkrir að taka skrefið út í keppnishjólreiðar með góðum árangri. Valdi segir hins vegar að keppnishlutverkið hafi aldrei verið hluti af hugmyndinni, heldur að ná hópnum saman og það hafi meðal annars verið gert í gegnum þátttöku í Cyclothon-hjólaviðburðinum.

Í gamla mötuneyti Björgunar hefur verið komið upp notalegri aðstöðu …
Í gamla mötuneyti Björgunar hefur verið komið upp notalegri aðstöðu fyrir ýmiss konar afþreyingu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hjólakraftur þróaðist svo út í að Valdi fór að taka að sér hjólahópa hjá grunnskólum bæði á höfuðborgarsvæðinu og víða á landsbyggðinni og segir hann að fyrir faraldurinn hafi dagskráin hjá honum verið orðin nokkuð þéttskipuð.

Ofan í þetta allt ákvað hann hins vegar að rétt væri að víkka út sjóndeildarhringinn enn frekar með því að opna eins konar félagsmiðstöð í Völvufelli og ákveðið tilraunaverkefni í Arnarbakka sem var í samstarfi við Reykjavíkurborg. Í Völvufelli var meðal annars búið að koma upp klifurvegg, þythokkí, borðtennisborðum og leikjatölvum og aðeins átti eftir að opna staðinn þegar öllu var skellt í lás.

Valdi segir að hugmyndin þar hafi verið að gera meira skapandi umhverfi og ná inn á áhugasvið fleiri krakka. „Þess vegna koma klifurveggurinn og hitt inn sem hugmyndir. Þetta er eitthvað sem allir elska að gera á einhverjum tímapunkti og geta fundið sig í,“ segir Valdi. Bendir hann á að flestir sæki í að gera eitthvað félagslegt og þegar búið sé að útvíkka hugmyndina í kringum Hjólakraft í fleiri spennandi jaðaríþróttir eða áhugamál sé líklegra að fólk komi sjálft eða fylgi vinum og kunningjum í slíka dagskrá. Segir Valdi að þótt boðið sé upp á alls konar inniafþreyingu þurfi úti- og inniafþreying að haldast í hendur. „Ef þú ætlar að vera inni að leika þá ætlum við að gera það sem foreldrar eiga oft erfitt með að gera. Þú þarft fyrst að koma með okkur út að leika og getur ekki bara verið innipúki. Hvort sem það er að hjóla, labba eða eitthvað annað, þú þarft að koma líka út að hreyfa þig,“ segir Valdi um hugmyndafræðina.

„Annaðhvort að pakka saman eða gera eitthvað meira“

Þegar faraldurinn kom upp í fyrra hafi öllu starfi verið sjálfhætt og segir Valdi að líkt og með ferðaþjónustuna hafi allar tekjur fyrirtækisins þornað upp á einu augabragði. „Það var annaðhvort að pakka saman eða gera eitthvað meira,“ segir hann. Í framhaldinu hafi hann séð auglýsingu Reykjavíkurborgar og ákveðið að slá til og síðasta haust hafi hann staðið uppi með um tvö þúsund fermetra húsnæði á Sævarhöfða, ekkert tekjuflæði og pínu óljósa hugmynd um hvað hann myndi að lokum gera þar.

Í grunninn hafi hann hins vegar viljað taka hugmyndina úr Völvufellinu en setja hana í mun stærra samhengi og víkka út áhugasviðið. Hann horfi meðal annars á að ná því með nálægðinni við fyrrnefnd félög og starfsemi á svæðinu. „Ég notaði veturinn til að undirbúa að hér yrði vöntun á afþreyingu og tómstundastarfi fyrir krakka þegar þessu lýkur og ákvað því að fara þessa leið og finna ólíkt fólk að vinna með mér,“ segir hann.

Valdi nefnir sirkuslistir sem eitthvað sem fæstir hafi prófað, en hljómi spennandi fyrir flesta. „Þótt þetta hljómi mjög spes er þetta jaðar sem er að stækka og hefur verið vaxandi undanfarin ár. Þau hafa einnig verið með æskusirkusinn og þetta var því stöngin inn,“ segir hann um að fá Hringleik inn í þennan klasa á Sævarhöfðanum. Þá segir hann að parkour henti börnum með ADHD alveg gríðarlega vel.

„Ég vil vera viðbúinn þegar kallið kemur og allt opnast“

„Samkomulagið hér er að ef einhver hættir í einni grein verður honum bent á aðrar greinar,“ segir Valdi um hvernig þetta samstarf sé hugsað. Nefnir hann að ef einhver byrji hjá Hjólakrafti en sé ekki að finna sig í hjólreiðum verði viðkomandi bent á sirkuslistir, hjólaskauta, parkour eða annað sem í boði verði. Þá sé markmiðið fyrir sumarið að koma upp sumarnámskeiðum sem gætu tengt allar þessar greinar saman. „Ég vil vera viðbúinn þegar kallið kemur og allt opnast með fjölbreytta dagskrá sem mun henta mjög stórum hópi,“ segir hann, en miðað við núerandi aðstæður segir Valdi að stefnt sé að því að námskeiðin fari í gang í júní.

Þar sem verkstæðishúsið er rétt við sjóinn segir Valdi að nú sé unnið að því að gera ramp niður í sjó. Í framhaldinu vilji hann ná að vera með kajaka þarna og þar með væri fimmti vinkillinn fyrir sumarnámskeið kominn. „Þetta gætu jafnvel verið 100 krakkar hér í einu, 20 á hverri stöð og við tækjum tvo daga í hverju fagi fyrir sig,“ segir hann og á þar við kajak, hjól, hjólaskauta, parkour og sirkuslistir.

Fjölbreytt líf verður á svæðinu. Hluti af gamla verkstæðinu þar …
Fjölbreytt líf verður á svæðinu. Hluti af gamla verkstæðinu þar sem meðal annars verður komið upp viðgerðaraðstöðu fyrir hjól. Í öðrum hlutum hússins verða Hringleikur og Parkour Ísland með aðstöðu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valdi nefnir einnig að á svæðinu sé aðstaða fyrir alls konar aðra afþreyingu. Sem dæmi hafi ungmennahópur úr Grafarvogi fengið að koma þegar sanddælingarskipið liggi við bakkann og hoppað af skipinu ofan í sjóinn, eða svokallað klettastökk. Segir Valdi að þetta hafi lengi verið vinsælt meðal annars við Gullinbrú, en að þarna sé hægt að gera þetta með einhverja yfirsýn og í öruggara umhverfi með minni straum í vatninu. Þá sé á landfyllingunni fullkomið svæði til að byggja upp fjallahjólabrautir og ætlunin sé að gera eitthvað slíkt í sumar.

Hingað til hafa kynjahlutföllin í starfi Hjólakrafts verið nokkuð jöfn að sögn Valda, en þó oftast aðeins fleiri strákar. Segir hann að almennt þegar komi á unglingsaldur og kynþroskaskeið detti mun hærra hlutfall stúlkna úr íþrótta- og félagsstarfi. Þessi tala geti jafnvel farið upp í 90% í vissum íþróttagreinum. Segir hann mjög mikilvægt að reyna að búa til vettvang sem geti gripið fleiri úr þessum hópi til að halda áfram að byggja þær upp félagslega. Segir Valdi að sumar stúlkur skipti yfir í aðrar íþróttir eins og crossfit, en margar detti algjörlega út úr félagsstarfi sem þessu. „Við þurfum að geta boðið upp á eitthvað enn annað,“ segir hann. „Hjólið verður áfram hjartað í starfseminni, en það er ekki fyrir alla og við viljum því reyna að stækka mengið og vinna saman.“

Láta kerfið taka við börnunum eða vera með eitthvert flex?

Spurður nánar út í hugmyndina með Hjólakrafti og þetta starf segir Valdi að hann hafi fyrir margt löngu séð að það líði ekkert öllum krökkum vel í skólanum. Þau eigi oft erfitt með nám, en það sé þó ekkert lokadómur yfir hæfileikum þeirra eða getu. „Við getum náð til krakka með svo fjölbreyttum hætti og það er hægt að kenna þeim svo margt öðruvísi en að láta þau sitja við borð.“ Nefnir Valdi dæmi út frá eigin reynslu með Hjólakraft. „Ég hef farið út að hjóla með krökkum sem hafa fengið að heyra að þau geti aldrei lært stærðfræði. Svo er maður úti að hjóla og það eru 50 metrar á milli ljósastaura og maður spyr hvað það þurfi að hjóla fram hjá mörgum staurum til að ná kílómetra. Svarað er að bragði 20. „Hvernig vissir þú það?“ spyr maður og fær svarið: „Það segir sig sjálft.“ Og þetta er fólk sem getur ekki lært stærðfræði?“ spyr Valdi með kaldhæðnistón. „Það er bara spurning hvernig við setjum dæmið upp.“

Valdi segir að nú þegar faraldurinn renni sitt skeið á enda þurfi að velta fyrir sér hvað taki við, en hann telur að einhverjar félagslegar „eftirverkanir“ verði í kjölfarið. Þannig séu bæði margir sem hafi misst félagslegu tenginguna, en einnig stór hópur sem hafi átt í erfiðleikum með mikla nánd við fjölskylduna og komi jafnvel úr áhættuhópi og geti þurft nokkurn tíma til að ná aftur jafnvægi í þau samskipti. „Ætlum við að láta kerfið taka við þessum börnum eða ætlum við að vera með eitthvert flex í boði?“ spyr hann og svarar að nauðsynlegt sé að hafa einhvern samastað þar sem fólki sé leyft að vera í sínum ólíka nördaskap en að gera eitthvað saman sem samfélag.

„Þau þurfa að vera partur af einhverju án þess að það sé skilgreint sérstaklega,“ segir Valdi. „Hjólakraftur er alls konar fyrir alls konar, þótt hjólið verði áfram í forgrunni.“ Bætir hann svo hlæjandi við að hann viti að þetta hljómi líklega kaótískt, en þannig virki oft þessi heimur og það þurfi að mæta honum á þann hátt.

Reiðhjólabændur eru með aðstöðu á neðri hæð skrifstofuhúsnæðisins.
Reiðhjólabændur eru með aðstöðu á neðri hæð skrifstofuhúsnæðisins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Reiðhjólabændur fá líka aðstöðu

Auk ungmennastarfs hafa félagssamtökin Reiðhjólabændur einnig fengið að hreiðra um sig á Sævarhöfða. Rætt er nánar við forsvarsmann samtakanna á öðrum stað í blaðinu, en Valdi segir að auk þess að félagið fái litla aðstöðu undir fundi eða til að hittast fyrir vikulega hjólatúra, verði í verkstæðishúsinu komið upp viðgerðaaðstöðu fyrir félaga. Bendir hann sérstaklega á hversu miðsvæðis Sævarhöfðinn sé fyrir fjölmargar hjólaleiðir og því mjög fínn staður til að byrja bæði og enda hjólatúra, en hefðbundnir bændarúntar á þriðjudögum eru þegar komnir í gang fyrir sumarið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert