Fjórir til taks fyrir EM ef fleiri fá kórónuveiruna

Pablo Fornals gæti komið inn í EM-hóp Spánverja.
Pablo Fornals gæti komið inn í EM-hóp Spánverja. AFP

Luis Enrique, þjálfari spænska karlalandsliðsins í knattspyrnu, hefur kallað fjóra leikmenn heim úr sumarfríi til að vera til taks fyrir Evrópukeppnina, ef svo kynni að fara að fleiri en fyrirliðinn Sergio Busquets fengju kórónuveiruna.

Busquets er kominn í einangrun eftir að hafa greinst með veiruna og missir væntanlega í það minnsta af fyrsta leik Spánverja á EM en þeir eiga að mæta Svíum á mánudaginn kemur, 14. júní.

Nú vilja Spánverjar hafa vaðið fyrir neðan sig ef svo kynni að fara að Busquets hafi smitað fleiri úr hópnum. Braiz Mendez frá Celta Vigo, Pablo Fornals frá West Ham, Carlos Soler frá Valencia og Rodrigo Moreno frá Leeds hafa þegar verið kallaðir inn og munu dvelja í „búblu“ samhliða þeirri sem aðrir liðsmenn eru í þessa dagana.

Spænska knattspyrnusambandið segir að fleiri leikmenn gætu verið kallaðir til eftir vináttulandsleik Spánar og Litháen sem fram fer annað kvöld en þar verða fáir af aðalliðsmönnum Spánverja með vegna smitsins í hópnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert