Misjafnar sögur fara af ákvörðuninni

Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Erna Bjarnadóttir varaþingmaður Miðflokksins.
Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Erna Bjarnadóttir varaþingmaður Miðflokksins. Samsett mynd

Sjálfstæðisflokkurinn tilkynnti á laugardag að Erna Bjarnadóttir Miðflokkskona og varaþingmaður Birgis Þórarinssonar hefði tekið ákvörðun um að ganga í raðir Sjálfstæðismanna. Þá bauð flokkurinn hana velkomna og óskaði henni og Birgi farsældar í störfum sínum.

Tilkynningin gengur á mis við þær upplýsingar sem Erna veitti í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Þar þvertók hún fyrir þá orðróma að hún væri að skipta um flokk.

„Ég hef ekki skráð mig í Sjálfstæðisflokkinn og er ekki á leiðinni þangað,“ sagði Erna.

Hún viðurkenndi að vissulega hefði ákvörðun hans komið henni á óvart en hún leggi það þó ekki í vana sinn að vera ósátt við fólk sem fylgi sinni sannfæringu. „Ég ætla bara að fá að fylgja minni og ég er ekkert að fara í Sjálfstæðisflokkinn,“ bætti hún síðan við.

Telur sig ekki hafa farið með fleipur

Í Morgunblaðinu á laugardag birtist viðtal við Birgi, fyrrverandi þingmann Miðflokksins, þar sem hann tilkynnti vistaskipti yfir til Sjálfstæðisflokksins. Gaf hann þá sterklega til kynna að varaþingmaður hans, Erna Bjarnadóttir, myndi feta í fótspor hans.

Í viðtali við Rás 2 seinna í dag sagði Birgir að Erna hljóti að hafa skipt um skoðun í ljósi þeirra svara sem hún gaf í Bítinu í morgun.

„Hún tjáði mér það að hún ætlaði að koma yfir en hún hefur greinilega skipt um skoðun,“ sagði Birgir sem taldi jafnframt að sú gagnrýni sem hann hefur hlotið fyrir vistaskiptin hafi mögulega haft áhrif á hana. Segir hann umræðuna um flokkaskiptin hafa gengið mjög langt í fjölmiðlum.

„Ég neita því ekki að þetta hefur verið harkaleg umræða gagnvart mér og það var nú til dæmis veist að mínu heimili í þessari umræðu. Menn eru farnir að seilast ansi langt,“ sagði hann í viðtalinu.

Segir hann að myndir af heimili hans hafi til að mynda verið birtar og að fjölskylda hans ekki hafa fengið frið.

Krafinn opinberrar afsökunarbeiðni

Líkt og áður hefur komið fram segir Birgir að ákvörðun hans um að yfirgefa Miðflokkinn megi rekja til Klausturmálsins, þegar hann gagnrýndi framferði flokksbræðra sinna og viðbrögð flokksins. Ummæli hans féllu í grýttan farveg og lýsir hann mjög óvinveittu umhverfi innan flokksins í kjölfarið. Kveðst hann þá einnig hafa verið krafinn um að skrifa opinbera afsökunarbeiðni vegna ummæla sinna.

„Fyrir vikið að þá er ég orðinn vandamálið í flokknum og ég er tekinn fyrir á þingflokksfundum. Það eru haldnir sérstakir þingflokksfundir þar sem að ég er eina umræðuefnið og gagnrýndur mjög harkalega fyrir að hafa gagnrýnt þá. Það eru þarna tveir fundir haldnir þar sem að ég er eini dagskrárliðurinn,“ sagði Birgir á Rás 2.

Þegar halda átti þriðja fundinn andmælti Birgir og hótaði að yfirgefa flokkinn. „Ég var á þeim tímapunktinn reiðubúinn til þess að fara, svo því sé haldið til haga.“

Segir hann andrúmsloftið hafa verið rafmagnað og að honum hafi liðið illa innan flokksins í langan tíma. Hafi hann þá upplifað mikla andstöðu frá áramótum og að veist hefði verið að fólki í uppstillingarnefnd flokksins í kjördæminu en Birgir skipaði fyrsta sæti í Suðurkjördæmi.

Tölvupóstur sem gerði útslagið

Að sögn Birgis var það síðan tölvupóstur, sem barst minna en viku fyrir kosning frá yfirstjórn flokksins, sem gerði loks útslagið. Í honum var dregið í efa að framboðslistinn myndi standast lög flokksins.

„Þetta eru náttúrulega ótrúlegar kveðjur frá yfirstjórn flokksins rétt fyrir kjördag þannig við vorum verulega sár og svekkt yfir þessu og þetta lýsir því að þetta var ekki búið enn þá.“

Í frétt Rúv kemur fram að Gunnar Bragi Sveinsson, fráfarandi þingmaður Miðflokksins, beri ábyrgð á póstinum. Segir þar meðal annars: „Samþykki listana en geri athugasemd við framkvæmdina í Suðurkjördæmi. Tel hana ekki í samræmi við góða málsmeðferð og hæpið að hún standist lög flokksins.“

Ekki náðist í Birgi Þórarinsson við gerð fréttarinnar og Erna Bjarnadóttir kvaðst ekki vilja tjá sig neitt frekar um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert