„Mér líkar ekki við fólk sem leggur í einelti“

Nick Kyrgios lét vel í sér heyra í viðureigninni í …
Nick Kyrgios lét vel í sér heyra í viðureigninni í gær. AFP/Glyn Kirk

Ástralski tennisleikarinn Nick Kyrgios hafði betur gegn Grikkjanum Stefanos Tsitsipas, 3:1, í þriðju umferð Wimbledon-mótsins á Englandi í gær. Kastaðist í kekki milli þeirra á meðan viðureigninni stóð og skutu þeir báðir föstum skotum á hvorn annan að henni lokinni.

Tsitsipas skaut nokkrum sinnum í átt að Kyrgios á þann hátt að Grikkinn virtist vera að reyna að hæfa Ástralann.

Grikkinn var einnig aðvaraður af dómaranum eftir að hann skaut bolta upp í stúku og hæfði þar nærri því áhorfanda.

Kyrgios, sem á sjálfur grískan föður, brjálaðist þá við dómarann, spurði hvort hann væri heimskur, sagði að boltinn hafi hæft höfuðið á áhorfanda, sem myndbandsupptökur sýndu þó að hafi ekki verið tilfellið, og kallaði eftir því að Tsitsipas yrði dæmdur úr leik.

Tsitsipas þrumaði boltanum einnig í stigatöfluna eftir undirhandar uppgjöf Kyrgios. Sagðist hann eftir leik hafa ætlað að hæfa Kyrgios.

Kyrgios hélt áfram að hrauna yfir dómarann Damien Dumusois og sagði hann á einum tímapunkti vera svívirðilegan. Ástralinn var aðvaraður eftir að línudómarar tilkynntu hann tvisvar til Dumusois fyrir blótsyrði.

Leggur andstæðinga sína í einelti

Á blaðamannafundi eftir viðureignina sagði Tsitsipas að Kyrgios leggi andstæðinga sína í einelti. Í gær virtist Ástralinn að vísu fyrst og síðast beina reiði sinni í átt að Dumusois. Tsitsipas sagði sífelld rifrildi og blótsyrði Kyrgios til marks um stanslaust einelti.

Stefanos Tsitsipas í viðureigninni í gær.
Stefanos Tsitsipas í viðureigninni í gær. AFP/Glyn Kirk

„Mér leið eins og þetta væri nokkurs konar sirkús. Við erum mættir hingað til þess að leika tennis. Hann leggur andstæðinga sína í einelti.

Hann var eflaust eineltisgerandi í skóla. Mér líkar ekki við fólk sem leggur í einelti. Mér líkar ekki við fólk sem þarf að setja annað fólk niður,“ sagði Tsitsipas.

„Hann býr líka yfir góðum persónueinkennum en hann á sér einnig illa hlið. Ef sú hlið kemur í ljós getur getur hún valdið fólkinu í kringum hann miklum skaða,“ bætti hann við.

Ég gerði ekki neitt

Kyrgios, sem hafði einnig betur gegn Tsitsipas fyrir tveimur vikum á Halle-mótinu í Þýskalandi, sat næst fyrir svörum á blaðamannafundi og gaf lítið fyrir ummæli Grikkjans.

Ég væri líka í ansi miklu uppnámi ef ég tapaði fyrir einhverjum tvær vikur í röð. Kannski ætti hann fyrst að finna út úr því hvernig hann geti unnið mig nokkrum sinnum til viðbótar,“sagði Kyrgios.

Spurður út í ummæli Tsitsipas um að Kyrgios hafi lagt hann í einelti sagði Kyrgios:

„Ég er ekki viss um hvernig ég á að hafa gert það. Það var hann sem var að þruma boltum í mig, það var hann sem skaut boltanum í áhorfanda, það var hann sem negldi boltanum af vellinum.

Ég gerði ekki neitt. Fyrir utan að ræða málin fram og til baka við dómarann um skeið þá gerði ég ekkert á hlut Stefanos sem bar vott um virðingarleysi, það held ég ekki. Ég var ekki að dúndra boltum í hann.“

Kyrgios sagðist þó enn elska Tsitsipas, en þeir léku saman í tvíliðaleik árið 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert