Stórkostlegur fyrri hálfleikur Vals gerði út af við Aftureldingu

Einar Ingi Hrafnsson hjá Aftureldingu brýtur á Alexander Erni Júlíussyni …
Einar Ingi Hrafnsson hjá Aftureldingu brýtur á Alexander Erni Júlíussyni hjá Val í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valur vann öruggan 30:21 sigur gegn Aftureldingu í 11. umferð Olísdeildarinnar í handknattleik karla í kvöld. Valsmenn voru 11 mörkum yfir í hálfleik, þar sem Anton Rúnarsson skoraði 10 af 21 marki þeirra í hálfleiknum, og var ekki aftur snúið fyrir gestina úr Mosfellsbæ eftir það.

Í upphafi leiks virtist stefna í hörkuleik þar sem jafnræði var með liðunum en eftir að Afturelding minnkaði muninn í 4:3 tóku Valsmenn hann algerlega yfir. Þeir bættu við fjórum mörkum og eftir það hertu þeir einungis tökin enn frekar og bættu við forystu sína jafnt og þétt. Undir lok fyrri hálfleiks var liðið komið með 11 marka forystu og náði að halda henni þegar flautað var til leikhlés.

Staðan 21:10 í hálfleik þar sem Anton var sem áður segir með tæplega helming marka Valsmanna. Þá var Martin Nagy í marki þeirra drjúgur og varði sjö skot í fyrri hálfleiknum. Að sama skapi voru Mosfellingar algjörlega heillum horfnir og áttu engin svör við sterkum sóknarleik Valsmanna, auk þess sem markvarsla gestanna var lítil sem engin.

Síðari hálfleikurinn var öllu rólegri enda má með sanni segja að skaðinn væri þegar skeður fyrir Mosfellinga. Anton bætti nokkrum mörkum við úr vítaköstum og Nagy hélt áfram að verja eins og berserkur, endaði hann með 16 varin skot og 50 prósent markvörslu. Þá datt Arnór Freyr Stefánsson í marki Aftureldingar aðeins í gang og endaði með átta varin skot, rúmlega 27 prósent markvörslu.

Anton endaði markahæstur í leiknum með 13 mörk og gaf sömuleiðis fjórar stoðsendingar. Markahæstur í liði Aftureldingar var Blær Hinriksson með fimm mörk og fjórar stoðsendingar að auki.

Valur var í 8. sæti fyrir leik en smeygir sér upp í 3. sæti með sigrinum og er nú með 13 stig eftir 11 leiki. Afturelding er í sætinu fyrir neðan með jafnmörg stig en lakari markatölu.

Valur 30:21 Afturelding opna loka
60. mín. Þorgils Jón Svölu Baldursson (Valur) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert