Innlent

Þorsteinn segir niðurstöðuna engan dóm yfir pólitískum ferli sínum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins.
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins. Vísir/Vilhelm

Þorsteinn Sæmundsson mun ekki fá sæti á lista Miðflokksins fyrir komandi Alþingiskosningar, eftir ráðgefandi oddvitakjör flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður. Hann segir það engan dóm yfir pólitískum ferli sínum en viðurkennir að hann sé keppnismaður og sé ósáttur að því leyti að hann eigi nóg inni.

„Þetta er náttúrlega lýðræðisleg niðurstaða og niðurstöðurnar segja mér líka að það sé fjöldi fólks í flokknum í Reykjavík sem kann að meta reynslu mína og störf. Og ég er mjög þakklátur öllum þeim sem studdu mig og mjög þakklátur yfir mjög góðum kveðjum sem mér hafa borist, bæði í aðdragandanum og á meðan og á eftir þessu gekk,“ segir hann.

Fjóla Hrund hefur ekki setið á þingi en þó komið inn sem varaþingmaður. Þorsteinn hefur setið á þingi, fyrst fyrir Framsóknarflokk og síðar Miðflokk, frá árinu 2013.

„Ég lít ekki á þetta sem einhvern dóm yfir því sem ég er búinn að vera að gera. Það er talað um það að það sé ákall eftir konum í pólitík og þar á meðal í Miðflokknum og við fáum að sjá það 25. september hvort það ákall skilar sér, það er að segja þeir sem kalla eftir konum flykki sér um flokkinn,“ segir hann.

Ertu ósáttur?

„Nei, nei eða þannig. Ég er náttúrlega keppnismaður. Ósáttur að því leyti að ég á margt ógert og sumu held ég áfram. Ég held áfram að berjast í málefnum þeirra sem misstu íbúðir í hendur Íbúðalánasjóðs, það er enginn til að taka við því. Og síðan eru önnur mál sem ég þarf að vinna í og ég held áfram að tjá mig – við skulum bara sjá hvað setur. Það er líf eftir pólitík. Ég var ekki alþingismaður í 59 ár þannig að ég kann það ágætlega,“ segir hann.

Fjóla sagðist í samtali við Vísi í gær vera spennt fyrir komandi tímum, þó niðurstaðan hafi komið henni á óvart.

„Ég óska flokknum og Fjólu Hrund alls hins besta. Fjóla Hrund er frambærileg og fín kona og á allt gott skilið.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×