Fótbolti

Messi valinn bestur í heimi í sjöunda sinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lionel Messi er handhafi Gullknattarins í sjöunda sinn.
Lionel Messi er handhafi Gullknattarins í sjöunda sinn. EPA-EFE/YOAN VALAT

Argentínumaðurinn Lionel Messi var í kvöld valinn besti leikmaður heims en tilkynnt var um handhafa Gullknattarins, Ballon d'or ársins 2021 í kvöld. Er þetta í sjöunda sinn sem Messi vinnur verðlaunin.

Hinn 34 ára gamli Messi hafði betur gegn Robert Lewandowski, Karim Benzema og Jorginho en þeir mynduðu efstu fjögur sætin. 

Þetta er í fyrsta sinn í 11 ár sem Cristiano Ronaldo er ekki meðal efstu þriggja í valinu á besta leikmanni heims.

Þó Messi hafi í raun aðallega komist í fréttirnar fyrir að færa sig um set og semja við París Saint-Germain þá tókst honum að vinna sinn fyrsta titil með Argentínu er liðið varð Suður-Ameríkumeistari í sumar.

Það virðist hafa verið nóg til að slá öðrum leikmönnum ref fyrir rass. Lewandowski var í öðru sæti valsins en hann hefði að öllum líkindum unnið í fyrra ef ekki hefði verið hætt við verðlaunin vegna kórónufaraldursins.

Jorginho endaði í þriðja sæti en hann vann Meistaradeild Evrópu með Chelsea síðasta vor og svo EM með Ítalíu í sumar. 

Þar á eftir komu Karim Benzema (Real Madríd, Frakkland) N‘Golo Kante (Chelsea, Frakkland), Cristiano Ronaldo (Manchester United, Portúgal), Mo Salah (Liverpool, Egyptaland), Kevin De Bruyne (Manchester City, Belgía) og Kylian Mbappé (PSG, Frakkland).

Eins og áður hefur komið fram var Messi að vinna verðlaunin í sjöunda sinn. Það er met en Ronaldo kemur þar á eftir með fimm Gullknetti.


Tengdar fréttir

Put­ellas valin best í heimi

Alexia Putellas, leikmaður Barcelona og spænska landsliðsins, var í kvöld kosin besti leikmaður heims. Er hún því nú handhafi Gullknattarins fræga eða Ballon d‘Or-verðlaunanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×