Hversu oft má ég kjósa?

„Öll atkvæðaumslögin fara í sama bunkann og líta öll eins …
„Öll atkvæðaumslögin fara í sama bunkann og líta öll eins út. Það veit enginn hvað þú kaust og það veit enginn hvaða atkvæði þú átt í kassanum, það er það sem þetta snýst um.“ mbl.is/Árni Sæberg

Margir spyrja sig eflaust hversu oft þeir megi kjósa eftir að hafa lesið umfjöllun mbl.is um atkvæðagreiðslu Loga Einarssonar, en hann kaus á kjörstað í dag eftir að hafa áður kosið utan kjörfundar í vikunni.

Allt að fimm atkvæði frá sama aðilanum

Gestur Jónsson, formaður yfirkjörstjórnar í Norðausturkjördæmi, segir þetta vera í góðu lagi og löglegt. Það er ekkert sem bannar fólki að kjósa eins oft og það vill utankjörfundar.

„Þetta er ekki algengt en við höfum séð þetta. Við höfum séð allt að fimm atkvæði frá sama aðilanum,“ segir Gestur í samtali við blaðamann. 

Ef viðkomandi kýs oft utankjörfundar þá gildir nýjasta utankjörfundaratkvæði viðkomandi.
Ef viðkomandi kýs oft utankjörfundar þá gildir nýjasta utankjörfundaratkvæði viðkomandi. mbl.is/Árni Sæberg

Enginn veit hvaða atkvæði þú átt

Utankjörfundaratkvæði eru talin síðast og ef viðkomandi hefur kosið á kjörstað er utankjörfundaratkvæðinu fargað. 

„Þú getur aldrei kosið tvisvar á kjördag í kjördeild. Um leið og þú ert búin að mæta í kjördeild og kjósa, þá telst þú hafa lokið þátttöku í þeirri kosningu. Þegar þú kýst á kjörstað þá eru öll utankjörfundaratkvæðin ógild og þeim fargað. Það er ekki hægt að skipta um skoðun eftir að atkvæðið er komið inn í kassann,“ útskýrir Gestur. 

Spurður hvernig nafnleynd er haldið á utankjörfundaratkvæðum segir Gestur aðeins ytra umslagið merkt og það umslag sem geymir atkvæði viðkomandi er sett í bunka með hinum utankjörfundaratkvæðunum og síðan talið. 

„Öll atkvæðaumslögin fara í sama bunkann og líta öll eins út. Það veit enginn hvað þú kaust og það veit enginn hvaða atkvæði þú átt í kassanum, það er það sem þetta snýst um.“

Ef viðkomandi kýs oft utan kjörfundar þá gildir nýjasta utankjörfundaratkvæði viðkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert