Lennon sá enn og aftur um Skagamenn

Steven Lennon skýtur að marki Skagamanna.
Steven Lennon skýtur að marki Skagamanna. mbl.is/Sigurður

Steven Lennon var hetja FH í öruggum 3:0-sigri á ÍA í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í kvöld. Skotinn skoraði öll mörk FH en hann hefur skorað átta síðustu mörk FH-inga í sjö leikjum í öllum keppnum. Þá hefur hann skorað þrjár þrennur á útivelli gegn ÍA í deildinni.  

Skagamenn byrjuðu ágætlega og náðu sér í nokkrar hornspyrnur í upphafi leiks og voru nálægt því að komast í mjög góð færi, en vörn FH stóð þokkalega og sá til þess að færi Skagamanna urðu ekki of hættuleg.

FH-ingar buðu upp á lítið yfir höfuð í fyrri hálfleiknum en á 32. mínútu dró til tíðinda. Hlynur Sævar Jónsson togaði Björn Daníel Sverrisson niður inn í teignum og Einar Ingi Jóhannsson dæmdi vítaspyrnu.

Steven Lennon fór á punktinn, skoraði af öryggi, og kom FH í forystu. Það reyndist eina mark fyrri hálfleiksins.

Skotinn var ekki lengi að bæta við öðru marki úr öðru víti á 49. mínútu er Eggert Gunnþór Jónsson náði í vítaspyrnu. Lennon fór á punktinn og skoraði af öryggi að vanda.

Aðeins sjö mínútum síðar fullkomnaði Lennon þrennuna er hann kláraði af stuttu færi eftir sendingu frá Baldri Loga Guðlaugssyni. Þótt mörkin yrðu ekki fleiri fengu FH-ingar fullt af tækifærum til að bæta við og var sigurinn algjörlega verðskuldaður.

Fyrsta markið vankaði ÍA

Skagamenn spiluðu heilt yfir vel í fyrri hálfleik og settu pressu á FH. Um leið og Steven Lennon skoraði fyrsta markið vönkuðust Skagamenn og FH gekk á lagið. ÍA er í botnsætinu og réð illa við að fá á sig mark gegn gangi leiksins. Leikmenn misstu alla trú á verkefninu. 

Í seinni hálfleik voru FH-ingar miklu sterkari og hefðu getað bætt við fleiri mörkum. Steven Lennon er dottinn í gang og það eru stórgóðar fréttir fyrir FH-inga. Þá lofaði innkoma Olivers Heiðarssonar góðu, en hann kom með gríðarlegan kraft í FH-liðið. 

FH getur hætt að horfa á liðin fyrir neðan sig og byrjað að horfa á Evrópusætin. Með góðum endaspretti í sumar getur FH-liðið alveg laumað sér í Evrópusæti. Eftir góðan sigur á Val í síðasta leik er þetta annað skref aftur á bak fyrir ÍA. 

ÍA 0:3 FH opna loka
90. mín. Morten Beck Guldsmed (FH) á skalla sem fer framhjá Þvílíkt dauðafæri, aftur! Árni Marinó missir boltann klaufalega frá sér og beint á Danann sem skallar framhjá með opið mark fyrir framan sig.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert