Birkir getur slegið metið en ekki Birkir

Birkir Bjarnason gæti leikið 105. landsleikinn 14. nóvember.
Birkir Bjarnason gæti leikið 105. landsleikinn 14. nóvember. mbl.is/Unnur Karen

Eftir að Birkir Már Sævarsson fékk gult spjald í leiknum við Armeníu í kvöld og verður þar með í leikbanni gegn Liechtenstein á mánudagskvöldið er ljóst að hann getur ekki lengur slegið landsleikjametið á þessu ári.

Rúnar Kristinsson á metið sem leikjahæsti leikmaður karlalandsliðsins í knattspyrnu en hann lék 104 A-landsleiki á sínum tíma. 

Birkir Már og nafni hans Birkir Bjarnason léku báðir sinn 102. landsleik í kvöld. Þar sem þrír leikir eru eftir á árinu getur Birkir Már nú aðeins jafnað  við Rúnar í 104 leiki með því að spila báða nóvemberleikina.

Birkir Bjarnason, sem var fyrirliði í kvöld, getur hinsvegar spilað sinn 105. landsleik þegar Ísland sækir Norður-Makedóníu heim til Skopje í lokaumferð riðlakeppninnar 14. nóvember. Til þess þarf hann þó að sleppa við gult spjald gegn Liechtenstein á mánudag, og gegn Rúmeníu 11. nóvember, og að sjálfsögðu líka við meiðsli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert