Stefán Teitur enn á skotskónum

Stefán Teitur Þórðarson fagnar fyrsta landsliðsmarki sínu á mánudaginn.
Stefán Teitur Þórðarson fagnar fyrsta landsliðsmarki sínu á mánudaginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stefán Teitur Þórðarson hefur heldur betur fundið markaskóna en hann skoraði í þriðja leiknum í röð þegar hann skoraði eina mark Silkeborg í 1:1 jafntefli gegn Viborg í nýliðaslag í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla í kvöld.

Stefán Teitur kom Silkeborg í forystu á 64. mínútu eftir sendingu frá Rasmus Carstensen en Sebastian Grönning jafnaði metin fyrir heimamenn í Viborg aðeins tveimur mínútum síðar.

1:1 reyndust því lokatölur og hafa báðir nýliðar deildarinnar í ár farið vel af stað á tímabilinu þar sem Silkeborg er í 4. sæti með 18 stig og Viborg í 9. sæti með 12 stig, þegar bæði lið hafa leikið 12 leiki.

Stefán Teitur hefur nú skorað í þremur leikjum í röð þar sem hann skoraði sitt fyrsta úrvalsdeildarmark fyrir Silkeborg um þarsíðustu helgi í 4:1 sigri gegn Nordsjælland.

Hann fylgdi því svo eftir með því að skora sitt fyrsta A-landsliðsmark í 4:0 sigri gegn Liechtenstein í undankeppni HM 2022 síðastliðinn mánudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert