„Aldrei séð svona fyrri hálfleik“

Íslenska landsliðið í handknattleik réði illa við Aidenas Malasinskas í …
Íslenska landsliðið í handknattleik réði illa við Aidenas Malasinskas í tapinu gegn Litháen í gær. Ljósmynd/HSÍ

Sigurður Valur Sveinsson, Siggi Sveins, fyrrverandi landsliðsmaður í handknattleik, var ekki alls kostar sáttur við frammistöðu íslenska karlandsliðsins í handknattleik þegar það tapaði 27:29 gegn Litháen í gær.

Afar slakur fyrri hálfleikur varð liðinu að falli í leiknum í gær. „Ég er ekki enn búinn að jafna mig. Þú verður að gera þér grein fyrir því að þetta var í raun og veru úrslitaleikur um hver myndi vinna riðilinn og fá þá auðveldari lið í Evrópukeppninni.

Ég hef bara aldrei séð svona fyrri hálfleik, það var eins og þeir væru að fara að grilla pylsur. Það var ekkert að gerast. Í alvöru, það var alveg sorglegt að sjá þetta. Þrjú mörk á fyrsta kortérinu,“ sagði Sigurður í hlaðvarpsþættinum Mín skoðun með Valtý Birni í dag.

„Fjögur mörk eftir 20 mínútur, skoruðu ekki fimmta markið fyrr en eftir 22 mínútur,“ skaut Valtýr Björn þá inn í.

„Mér fannst bara svo sorglegt að sjá hvar leikgleðin var, þetta var bara ótrúlegt. Í fyrri  hálfleik voru menn að bíða eftir því að þetta myndi gerast af sjálfu sér, að þetta myndi detta inn.

Ég hef bara aldrei séð svona, og það þrátt fyrir að [Aidenas] Malasinskas hafi skorað 12 mörk úr 12 skotum. Svo eru þeir með þennan stóra, Jonas [Truchanovicius], þeir voru saman með 20 mörk,“ sagði Sigurður, en 12 mörk Malasinskas úr 16 skotum og 7 mörk Truchanovicius úr 8 skotum lögðu grunninn að sigri Litháa.

Honum þótti sem Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari hefði átt að bregðast fyrr við erfiðleikum í bæði sóknar- og varnarleik.

„Það var alveg vitað að þetta væri góður leikmaður [Truchanovicius]. Hann getur ekki bara labbað þarna, hann bara bankar á dyrnar og þá fóru allir. Þetta var bara fáránlegt. Svo voru engar lausnir. Ég skil ekki af hverju Guðmundur tók ekki leikhlé, hann tekur bara leikhlé seint í síðari hálfleik. Þetta var mjög skrítið,“ sagði Sigurður.

Umræður Valtýs og Sigurðar um landsleikinn í gær má hlýða á í heild sinni hér, og hefjast þær eftir um 25:30 mínútur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert