B-lið verða ekki hluti af enskri deildakeppni

B-lið enskra félaga munu ekki taka þátt í deildakeppni þar …
B-lið enskra félaga munu ekki taka þátt í deildakeppni þar í landi. AFP

Rick Parry, formaður neðri deilda í knattspyrnu á Englandi, segir það ekki koma til greina að hleypa B-liðum enskra félaga í deildakeppni þar í landi.

„Satt að segja sé ég ekki að það sé einu sinni á borðinu. Ég sé það ekki gerast og burtséð frá minni skoðun er það tvímælalaust ekki neitt sem félögin okkar eru spennt fyrir,“ sagði Parry í samtali við BBC Sport.

Fyrrverandi formenn enska knattspyrnusambandsins hafa í gegnum árin lagt til að B-lið fengju að taka þátt í deildakeppninni með það fyrir augum að styrkja enska knattspyrnu karlamegin.

Á Spáni, í Portúgal, Hollandi og Þýskalandi eru B-lið félaga leyfð í deildakeppni þar sem fyrirkomulagið hefur gefist vel en Parry sér ekkert aðlaðandi við hugmyndina.

„Það er búið að reyna þetta. Greg Dyke reyndi þetta, Greg Clarke kynnti þetta til sögunnar í upphafi „Project Big Picture“ og ég sagði: „Þetta er ekki til umræðu, þetta er ekki að fara að gerast“,“ sagði hann, en báðir Greg sem hann nefnir voru formenn enska knattspyrnusambandsins á sínum tíma.

„Styrkur ensku deildakeppninnar er fólginn í því að hvert einasta félag er í hjarta samfélags síns. Félögin okkar leggja nærri því jafn mikla áherslu á samfélögin sín og þau leggja á aðalliðin sín og hvað á sér stað á knattspyrnuvellinum,“ bætti Parry við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert