Nítján ára strákur setti skrekk í stjörnuna

Lorenzo Musetti slær boltann í átt að Novak Djokovic í …
Lorenzo Musetti slær boltann í átt að Novak Djokovic í leiknum í dag. AFP

Nítján ára gamall Ítali var nálægt því að slá serbnesku tennisstjörnuna Novak Djokovic út í fjórðu umferð Opna franska mótsins í tennis í dag.

Lorenzo Musetti, sem er í 76. sæti heimslistans,  gerði sér lítið fyrir og vann fyrstu tvö settin gegn Djokovic sem er efstur á heimslistanum. En úthald og reynsla Djokovic skiluðu sér, hann vann næstu tvö með talsverðum yfirburðum og var síðan kominn í 4:0 í því fimmta og síðasta þegar Musetti varð að hætta keppni vegna meiðsla.

Musetti var í fyrsta sinn með í aðalkeppni á stórmóti og hann fékk dynjandi lófaklapp frá áhorfendum þegar hann yfirgaf völlinn.

Lorenzo Musetti yfirgefur völlinn í fimmta setti eftir að hafa …
Lorenzo Musetti yfirgefur völlinn í fimmta setti eftir að hafa meiðst. AFP

„Mér finnst best að mæta ungum leikmönnum þar sem þarf að vinna þrjú sett því mér finnst ég alltaf eiga möguleika þó ég tapi tveimur fyrstu. Ég er í mjög  góðu líkamlegu ástandi og hef unnið flesta fimm setta leiki sem ég hef spilað og sú reynsla hjálpar mér. Það var leitt að hann skyldi þurfa að hætta keppni en ég sá að hann var kominn í vandræði með úthaldið,“ sagði Djokovic við fréttamenn eftir leikinn.

Hann mætir nú öðrum Ítala, Matteo Berrettini, í næstu umferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert