Í fyrsta skipti síðan í desember

Lionel Messi íhugar næstu sendingu í leiknum gegn Valladolid í …
Lionel Messi íhugar næstu sendingu í leiknum gegn Valladolid í gærkvöld. AFP

Eftir magnaða frammistöðu undanfarna mánuði telst það til tíðinda að Lionel Messi náði hvorki að skora né leggja upp mark í gærkvöld þegar Barcelona sigraði Real Valladolid 1:0 í spænsku fyrstudeildarkeppninni í knattspyrnu.

Það hafði ekki gerst í sextán leikjum í röð í deildinni síðan í desember en Messi hefur verið nánast óstöðvandi frá þeim tíma og náð að rífa Barcelona upp eftir erfiðleika innan vallar sem utan á tímabilinu.

Katalóníuliðið er nú aðeins einu stigi á eftir Atlético Madrid í slagnum um spænska meistaratitilinn og hefur unnið sex síðustu leiki sína í deildinni. Liðið er taplaust í átján leikjum í röð í deildinni og hefur unnið sextán þeirra.

Messi, sem verður 34 ára í sumar, er markahæsti leikmaður deildarinnar með 23 mörk og hefur skorað fjórum mörkum meira en næstu menn sem eru Gerard Moreno hjá Villarreal og Luis Suárez hjá Atlético Madrid.

Þá er hann í öðru til fjórða sæti í stoðsendingum í deildinni en Messi hefur lagt upp átta mörk fyrir Barcelona. Aðeins Iago Aspas hjá Celta Vigo er með fleiri stoðsendingar á tímabilinu, tíu talsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert