Þakklátur James, samherja sínum og læknateymi

James Rodríguez, leikmaður Al-Rayyan í Sádi-Arabíu.
James Rodríguez, leikmaður Al-Rayyan í Sádi-Arabíu. AFP

Ousmane Coulibaly, knattspyrnumaður frá Malí, er uppfullur þakklætis eftir að lífi hans var bjargað í kjölfar þess að hann fékk hjartaáfall í leik með liði sínu Al-Wakrah gegn Al-Rayyan í efstu deild Katar um síðustu helgi.

James Rodríguez, leikmaður Al-Rayyan, var eldsnöggur að veita Coulibaly fyrstu hjálp þegar hann kom honum í læsta hliðarlegu og hélt um höfuð Malímannsins.

Á Instagramaðgangi sínum þakkaði Coulibaly fyrir sig og nefndi þar sérstaklega James, samherja sinn, markvörðinn Saoud Al Khater og læknateymin á leiknum og á spítalanum sem hann var fluttur til.

„Þann 9. janúar 2022 fékk ég hjartaáfall á vellinum skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks. Margir áttu þátt í því að það sem þurfti til að endurlífga mig var gert strax eftir að ég hneig niður.

Þökk sé Guði og því sem þessar hetjur gerðu er ég hólpinn. Ég vil þakka James Rodríguez sem veitti mér fyrstu hjálp með því að halda um höfuð mitt sem og Saoud Al Khater sem var eldsnöggur að gefa læknateyminu á vellinum merki um að hraða sér inn á völlinn.

Takk Dr. Mokhtar Chaabane fyrir að hafa bjargað mér og veitt eiginkonu minni stuðning og þakkir til læknateymisins á staðnum sem stóð sig frábærlega þar til ég var fluttur á spítalann. Takk Hamad Medical og Heart-spítalinn fyrir allan stuðninginn,“ skrifaði Coulibaly meðal annars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert