Erlent

„Ótrúlegur hraði“ í þróun bóluefna

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Aldrei hefur tekist að búa til bóluefni jafnhratt og nú stefnir í.
Aldrei hefur tekist að búa til bóluefni jafnhratt og nú stefnir í. AP/Ng Han Guan

Jákvæðar niðurstöður berast nú í röðum frá framleiðendum bóluefna gegn kórónuveirunni. Aldrei áður hefur tekið jafnskamman tíma að þróa bóluefni.

Bandarísku fyrirtækin Pfizer og Moderna tilkynntu á dögunum um að bóluefni sín veiti um 95 prósenta vernd gegn veirunni, samkvæmt niðurstöðum úr þriðja og síðasta stigi tilrauna. Bóluefni Sputnik í Rússlandi var sagt veita álíka mikla vernd en samkvæmt breska ríkisútvarpinu eru skiptar skoðanir um áreiðanleika niðurstaðna Rússanna.

Í morgun birtu rannsakendur hjá Oxford svo niðurstöður úr tilraunum á öðru stigi þar sem fram kom að bóluefni Oxford og AstraZeneca myndi sterk ónæmisviðbrögð hjá fólki á sjötugs- og áttræðisaldri. Það sem skilur Oxford-bóluefnið að frá hinum er hins vegar það að ekki þarf að geyma efnið í miklu frosti. Því gæti orðið auðveldara að dreifa því til fólks.

Ugur Sahin, framkvæmdastjóri BioNTech, sem vinnur með Pfizer að bóluefni, segir árangurinn hingað til fordæmalausan. „Þetta hefur verið ótrúlegur hraði og efnið virkar ótrúlega vel.“

Aldrei hefur tekist að búa til bóluefni jafnhratt og nú stefnir í. Fyrra met var sett þegar bóluefni við hettusótt var þróað á um fjórum árum.

Ísland fær aðgengi að bóluefni gegn kórónuveirunni í gegnum Evrópusambandið sem hefur þegar samið við nokkur fyrirtæki, meðal annars Pfizer og AstraZeneca, sem framleiðir Oxford-bóluefnið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×