Gular viðvaranir um allt land

Gert er ráð fyrir viðvörunum á einhverjum tímapunki um allt …
Gert er ráð fyrir viðvörunum á einhverjum tímapunki um allt land, að höfuðborgarsvæðinu undanskildu, næstu tvo sólarhringa. Kort/Veðurstofa Íslands

Næstu tvo sólarhringa verða gular viðvaranir í gangi á einhverjum tímapunkti um allt land, nema á höfuðborgarsvæðinu. Búast má við hvassviðri eða stormi víðast hvar og talsverðri rigningu með líkum á vatnavöxtum víða. Þá er spáð allt að ofsaveðri á miðhálendinu með talsverðri snjókomu. Þar verður ekkert ferðaveður, en víða annars staðar er fólk varað við ferðalögum.

Gulu viðvaranirnar byrja í dag með viðvörun vegna vestan hvassviðris á Suðausturlandi, en þar er gert ráð fyrir 15-23 m/s. Hvassast verður í Mýrdal og við Öræfajökul þar sem hviður geta farið yfir 30 m/s.

Í nótt mun lægja, en á morgun er aftur spáð hvassviðri með 15-20 m/s og talsverðri rigningu á Suðurlandi og Suðausturlandi.

Þegar líður á morguninn bætast Vestfirðir við þar sem gert er ráð fyrir norðaustan stormi með snjókomu á fjallvegum. Spáð er 20-25 m/s með mjög snörpum vindhviðum við fjöll.

Á hádegi á morgun, þriðjudag, er gert ráð fyrir viðvörunum …
Á hádegi á morgun, þriðjudag, er gert ráð fyrir viðvörunum víðast hvar, nema á Norðaustur- og Austurlandi. Kort/Veðurstofa Íslands

Viðvaranir fyrir Faxaflóa, Breiðafjörð, Norðurland vestra og miðhálendið bætast svo við fyrir hádegi. Á Faxaflóa er gert ráð fyrir 15-20 m/s og talsverðri rigningu. Á Snæfellsnesi má vænta 20-25 m/s með mjög snörpum vindhviðum við fjöll og sömu sögu er að segja við Breiðafjörð og á Vestfjörðum. Á Ströndum og Norðurlandi vestra er spáð 15-23 m/s og talsverðri rigningu með slyddu á fjallvegum.

Á miðhálendinu má búast við allt að ofsaveðri, en þar er spáð suðaustan 18-25 m/s sem gengur svo í suðvestan 23-30 m/s á eftir hádegi. Búast má við talsverðri snjókomu, slyddu eða rigningu og varað er við að ekkert ferðaveður sé á hálendinu.

Klukkan 18:00 á morgun, þriðjudag, hefur dregið úr viðvörunum vestan …
Klukkan 18:00 á morgun, þriðjudag, hefur dregið úr viðvörunum vestan til á landinu, en þær eru þó enn í gildi austan til og á Vestfjörðum. Kort/Veðurstofa Íslands

Síðdegis bætast svo við Norðurland eystra, Austurland og Austfirðir. Er þar gert ráð fyrir 15-25 m/s og snörpum vindhviðum við fjöll á Norðurlandi eystra. Viðvörunin fyrir Norðausturland og Austurland gengur ekki yfir fyrr en að morgni miðvikudags.

Á miðvikudagsmorgun er það aðallega Norðausturland og Austurland þar sem …
Á miðvikudagsmorgun er það aðallega Norðausturland og Austurland þar sem búast má við áframhaldandi hvassviðri. Kort/Veðurstofa Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert