„Sumarið varla byrjað“

Frá leiknum í kvöld.
Frá leiknum í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Mér fannst við mæta ferskar til leiks og við gáfum Blikum hörkuleik,“ sagði Guðni Eiríksson, þjálfari FH, eftir 3:0-tap fyrir Breiðabliki í 3. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld.

„Mörk breyta leikjum og boltinn vildi ekki inn hjá okkur í fyrri hálfleik þrátt fyrir fínar marktilraunir. Það er bara svona og svo fáum við skítamark á okkur í andlitið.

Við hefðum getað brugðist við því í seinni hálfleik en gerðum það ekki og fáum svo annað mark í andlitið. Þá er þetta því miður orðið ansi erfitt fyrir okkur,“ hélt Guðni áfram er hann ræddi við mbl.is eftir leik.

Viljum snúa taphrinunni við

FH hefur nú tapað tveimur leikjum í röð eftir að hafa unnið Tindastól á Sauðárkróki í fyrstu umferð. FH-ingar eru þó síður en svo farnir að örvænta.

„Nei, þetta er það langt mót og sumarið varla byrjað þannig að það er bara áfram gakk og allt það.

Það eru allir í kringum FH-liðið sem vilja eðlilega breyta taphrinu í hina áttina og við munum leggja mjög hart að okkur að gera það í næsta leik,“ sagði Guðni að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert